„Forsetinn getur stuðlað að við stefnum öll í sömu átt“

Guðni Th. Jóhannesson, sem býður sig fram til endurkjörs sem forseti Íslands, hefur komið víða við á ferð sinni um Austfirði í dag. Hann segir kjósendum efst í huga hvernig stuðlað sé að öflugu samfélagi um allt land.

„Fólki er efst í huga hagur þess, hvernig hann er best varinn og hvernig við stuðlum að því að hafa hér öflugt samfélag. Til þess skiptir mestu máli að hafa allar grunnstoðir í lagi, atvinnulíf, samgöngur, heilbrigðisþjónustu, skóla en líka afþreyingu til að geta gert sér glaðan dag eftir vinnu.

Forsetinn hefur vissulega ekki fjárveitingarvaldið og getur því ekki lofað öllu fögru þegar hann mætir í heimsókn. Með sínu óbeina áhrifavaldi getur hann þó stuðlað að því að við sem búum í þessu landi stefnum að því sama og finnum kraftinn af því.

Auðvitað búa flestir á suðvesturhorninu og una hag sínum vel en við þurfum samt að hafa öfluga staði um land allt. Ég vona að fólk finni hér, eins og annars staðar, kraft stærðarinnar. Það þarf að vera skilningur á að menn hagnast ekki á að vera sundraðir heldur finni kraft í að vinna saman. Hér á Austurlandi lýsir það sér í sameiningu sveitarfélaga,“ segir Guðni.

Forsetakosningar verða haldnar laugardaginn 27. júní. Sama dag verður kosið um nafn sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. „Ég á mér eitt óskanafn en læt ekki uppi hvert það er. Ég hlakka til að ávarpa íbúa hins nýja sveitarfélags með því nafni sem valið verður,“ segir hann.

Stóðum okkur vel gegn veirunni

Guðni hefur í dag ferðast um Austurland og hitt kjósendur. Hann byrjaði daginn á að heilsaði upp á heilbrigðisstarfsfólk og heimilisfólk á hjúkrunarheimilinu Dyngju.

„Það er aðdáunarvert hvernig heilbrigðisstarfsfólkið hér, sem annars staðar, tókst á við þennan vágest sem kórónuveiran er. Fullnaðarsigur er ekki unninn en við getum sagt að við höfum gert eins vel og við gátum. Vissulega misstum við fólk en við stóðum okkur vel miðað við það hörmungarástand sem ríkir víða annars staðar.

Nú tekur við annar áfangi. Ég finn að fólk hefur áhyggjur af kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og vonast til að þar finnist lausn. Það er ekki í verkahringt forseta að hlutast til um lausn deilunnar en sá sem gegnir embætti forseta getur bent á nauðsyn þess að þessi mikilvæga starfsstétt njóti viðunandi starfskjara eins og aðrir.“

Ekki nógu skýr vilji til að synja lögum

Um tíma leit út fyrir að Guðni fengi fimm mótframbjóðendur en aðeins einum þeirra, Guðmundi Franklín Jónssyni, tókst að safna nægum fjölda undirskrifta til að bjóða sig fram. Hinir áhugasömu mótframbjóðendur áttu þó allir sameiginlegt að vilja nýta í auknum mæli vald forsetans og hefur Guðmundur gagnrýnt Guðna fyrir að hafa ekki nýtt það betur.

Aðspurður segist Guðni ekki finna fyrir þrýstingi frá kjósendum um að nýta valdheimildirnar meira. „Nei, þvert á móti hef ég fundið að fólk sýnir því skilning og er sammála mér um að þá sjaldan sem forseti synjar lögum staðfestingar þurfi vilji kjósenda í þeim efnum að vera skýr og ríkur.

Sú hefur ekki verið raunin í þeim tveimur málum sem helst hafa komið til álita. Annars vegar bárust mér 5000 undirskriftir í upphafi forsetatíðar minnar um að synja búvörusamningum sem Alþingi samþykkti við upphaf minnar forsetatíðar, hins vegar bárust mér á nýliðnum vetri áskoranir rúmlega 7000 kjósenda um að synja breytingum á lögum um Orkustofnum staðfestingar.

Ólíkt því sem raunin var um Icesave og fjölmiðlalögin voru þessar undirskriftir ekki það margar að forseti eða aðrir geti sagt að hér hafi ríkur vilji þjóðar komið fram. Ég hef fundið að upp til hópa eru Íslendingar sáttir við þá niðurstöðu að fara þá leið sem farin var.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.