Orkumálinn 2024

Framleiða mjólk úr byggi frá Vallanesi

Byggið sem framleitt er í Vallanesi hefur ekki einungis fest sig í sessi sem söluvarningur eitt og sér, heldur er það stöðugt að verða vinsælla sem afurð í margskonar framleiðslu. Bopp byggflögurnar þekkjum við frá Havarí og nú hefur bæst við byggmjólk. Fyrirtækið Kaja organic framleiðir hana og er hún fyrsta íslenska byggmjólkin.

Karen Emilía Jónsdóttir, eigandi Kaja Organic, fannst vanta á íslenskan markað jurtamjólk framleidda úr íslensku hráefni.

„Ég hef starfað hjá innflutningsfyrirtæki og svo mínu eigin fyrirtæki og í gegnum vinnuna hef ég séð hversu mikið er flutt af jurtamjólk, en Íslendingar flytja inn um eina og hálfa milljón lítra af jurtamjólk á ári. Það er þá til dæmis soja- og möndlumjólk og einnig byggmjólk. Megnið er flutt inn frá Ítalíu en Svíþjóð og Finnland hafa verið að koma meira inn undanfarin ár, “ segir Karen Emilía.

Þar sem Kaja Organic framleiðir bara lífrænt ræktaðar vörur er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur íslenskum korntegundum.

„Eina kornið sem ræktað er lífrænt hér á landi er byggið á Vallanesi og því er það eini kosturinn. En sem betur fer framleiða þau Eymundur og Eygló ofboðslega gott bygg og þess vegna fór ég út í að gera byggmjólkina. Að auki er byggið gífurlega hollt og bragðgott.“

Tvö ár

Aðalatriðið var að finna út úr því hvernig átti að framleiða mjólkina hér, en hér var engin þekking til staðar á þessari framleiðslu. Karen fékk styrk fyrir tveimur árum til að hefja þróunar- og rannsóknarvinnu vegna framleiðslu á byggmjólkinni.

„Mestur tíminn fór í að finna út hvernig við ættum að gera þetta og sníða þetta að okkar þörfum. Kaja er lítið fyrirtæki með ekkert bakland. Tækin sem þyrfti til að að framleiða þetta almennilega kosta mörg hundruð milljónir allt í allt. Ég hef engin tök á að verða mér úti um þau. Þess vegna geri ég þetta bara í pottum og helli svo í glerflöskur.

Eitt sem kom mér sérstaklega á óvart í þróunarvinnunni var að við áttuðum okkur á því að í innfluttu mjólkinni er notað 12-14 % af byggi en ég nota bara 6-8% en það er alveg nóg. Íslenska byggið er bragðsterkara,“ segir Karen.

Næstu skref segir Karen vera að fá styrk svo hægt verði að ráða einstakling sem hefur vit á tækjum og tólum. Fara svo með framleiðsluna á næsta stig og keyra á markaðssetningu.

Fleiri byggvörur

„Margir hafa pirrað sig á því að ég kalli þetta mjólk en mér var bent á að í Orðabók Háskólans er mjólk skilgreind sem næringarríkur vökvi sem getur komið úr plöntum, spenum eða jafnvel úr sjávarríkinu,“ útskýrir hún.

Mjólkin er ekki það eina sem hún framleiðir úr bygginu úr Vallanesi því hún framleiðir einnig byggkaffi. „Sá drykkur alls ekki nýr af nálinni. Hann varð vinsæll í seinna stríði á meðal Ítala en byggið var notað í staðinn fyrir kaffi þegar það fékkst ekki.“

Hún brennir byggið og malar það líkt og gert er með kaffibaunir. Bragðið er auðvitað ekki eins en ekki svo frábrugðið að hennar sögn. „Ramma bragðið kemur fram og maður fær sama fílinginn. Það eru töluvert margir sem vilja það frekar. Það er auðvitað koffínlaust og hentar því mörgum.

Mynd: Kaja Organic


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.