„Gaman að sjá þær brosa hringinn og rifja upp gömlu góðu taktana"

Nýlega eftir áramót byrjaði Fjóla Þorsteinsdóttir einkaþjálfari á Fáskrúðsfirði með danstíma fyrir eldri borgara. Hugmyndin kviknaði þegar konur sem voru í leikfimitímum hjá henni sáu innslag í sjónvarpinu um svipaða starfsemi. Þær skoruðu á hana og hún lét ekki skora á sig tvisvar og viðbrögðin hafa verið frábær að hennar sögn.

 

„Ég hef verið að bjóða upp á leikfimi fyrir eldri borgara í Fjarðabyggð. Svo rétt fyrir jól voru konurnar sem eru hjá mér að tala um og spyrja hvort ég hafi ekki séð þáttinn Landann sem var sýndur þarna skömmu áður. Ég hafði ekki gert það. En í þeim þætti var innslag um eldri borgara sem komu saman og dönsuðu. Þær spurðu hvort ekki væri hægt að bjóða upp á svoleiðis tíma,“ segir Fjóla.

Þá var hún send heim til að horfa á þetta innslag og Fjólu leist svo vel á að hún hringdi strax í eina úr hópnum sagði við hana að fyrsti danstíminn yrði strax eftir áramót.

„Núna erum við búin að hafa tvo tíma og viðbrögðin hafa verið stórkostleg og þetta er eiginlega bara búið að slá algerlega í gegn. Þetta hitti greinilega svona beint í mark og hefur spurst svo hratt út að fólk er strax farið að biðja mig um koma í næstu firði. En því miður hef ég ekki tök á því en ég vil að fólk viti að það er eru allir Fjarðabyggðabúar velkomnir að kostnaðarlausu.“

Fjóla segir að þessar kjarnakonur taki eiginlega yfir danstímana um leið og hún setur tónlistina í gang. 

„Ég hef verið setja t.d. Ingimar Eydal, Baga Hlíðberg á fóninn og við höfum verið að dansa allt frá gömlu dönsunum yfir í Tinu Turner dansa. En svo eru þær eiginlega bara að stjórna þessu og taka þær bara völdin. Sem er yndislegt. Ég held þá bara meira utan þetta. Það er svo gaman að sjá þær brosa hringinn og rifja upp gömlu góðu taktana. Þær hafa engu gleymt.“

Hún segir venjulega finna fyrir ánægju og þakklæti eftir leikfimitímana. „En eftir þessa tíma fann ég einhverja sprengingu. Þetta er svo hrein og mikil gleði sem kemur frá þeim og það er svo gaman að verða vitni að þessu og vera líka þátttakandi í þessu þeim. 

Ég vil bara að fleiri komi og verði með. Líka karlar. Þetta er svo góð hreyfing og frábær félagsskapur. Það var ein í síðasta tíma sem er svo slæm í hnjánum þannig hún sat bara í stól og dillaði sér og dansaði með. Hún iðaði alveg í stólnum. Það geta allir tekið þátt,“ bætir hún við.

Fjóla segir að mætingin í þessa tíma hefur verið miklu betri en í nokkurn leikfimi tíma hjá sér. 

„Það hefur greinilega verið vöntun á svona tímum eða svipuðum. Mér finnst ekki vera nógu mikið í boði fyrir eldri borgara þegar kemur að hreyfingu. Það er eitthvað en ekki nóg. Við sem yngri erum verðum leggja þeim sem eldri eru, lið,“ segir Fjóla.

 

Dansstjörnunar eftir danstímann. Mynd: Fjóla Þorsteinsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.