Gott að hlæja í jólastressinu

Pínulitla aðventugrínhátíðin verður haldin í Neskaupstað í fyrsta sinn um helgina. Skipuleggjandi segir markmiðið að halda hátíð sem verði aldrei stór en létti fólki lundina í jólastressinu.

„Okkur fannst fyndið að kalla hana „Pinkulitlu“ aðventu-grínhátíðina, bæði því það sem er lítið og krúttlegt er jólalegt, en líka því okkur langar ekki til að hún sprengi utan af sér eins og aðrar hátíðir,“ segir Benedikt Karl Gröndal, leikari og blaðamaður Austurfréttar sem er listrænn stjórnandi hátíðarinnar.

„Markmiðið er að það verði aldrei meira en þrír eða fjórir viðburðir á hátíðinni – í mesta lagi fimm. Við viðurkennum það ekki ef þeir verða fleiri. Við fullyrðum að þetta sé langminnsta sviðslistahátíðin.“

Benedikt stendur að baki hátíðinni ásamt konu sinni, Elínu Guðmundsdóttur. Hann segir þau fyrst hafa sótt um styrk til að halda tónleika með grín- og söngdúettnum Vandræðaskáldunum og halda litla jólatrúðasýningu.

Meðan þau biðu eftir svari þróaðist hátíðin um að smella þessu saman í eina hátíð í aðdraganda jóla. „Við vildum láta reyna á hvort þetta væri hægt. Tónlistarfólk á yfirleitt markaðinn á þessum tíma, það er ekkert að því enda elska allir jólatónleika, en það er heldur aldrei of mikið af gríni eða viðburðum þar sem fólk getur komið saman til að hlæja,“ segir Benedikt.

Í kvöld verða það þau Sesselja Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason sem koma fram sem Vandræðaskáldin á Hildibrand. Á föstudag og laugardag verður það trúðurinn Pétur sem túlkar jólasögur í Kajakhúsinu.

„Jólasýning Péturs byggist algjörlega á áhorfendum. Þeir skrifa jólaminningar á blað og setja í hatt sem Pétur dregur upp úr og leikur minninguna. Hún má vera fyndin eða sorgleg, því trúðurinn gerir ekki bara grín, hún þarf bara að vera sönn,“ segir Benedikt.

„Gestir þurfa ekki að óttast að vera teknir fyrir. Þetta er allt gert í kærleik og jólaandinn mun svífa yfir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.