Hæ hó, jibbí jei - Hvað er um að vera 17. júní?

Formlegum og hefðbundnum hátíðahöldum í tilefni þjóðhátíðardagsins 17. júní hefur víðast hvar verið aflýst. Það eru þrátt fyrir það ýmsir viðburðir í dag, víða um Austurland.

Messur að morgni

Í Egilsstaðakirkju er hátíðarguðsþjónusta kl. 10:30. Kór Egilsstaðakirkju syngur, einsöngur Broddi Bjarnason, organisti Torvald Gjerde. Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir þjónar. Barnastund í umsjá sr. Þorgeirs Arasonar á sama tíma, með sögu og söng. Rótaryklúbbur Héraðsbúa afhendir þjóðhátíðarviðurkenningu í messunni. Kaffi og kleinur að guðsþjónustu lokinni og öllum boðið að fara upp í kirkjuturn og blása sápukúlum yfir Egilsstaði.

Hátíðarmessa verður í Hofskirkju í Vopnafirði kl. 11. Kór Vopnafjarðar- og Hofskirkju syngur undir stjórn Stephen Yates, kaffisopi í garðinum ef veður leyfir. Allir eru velkomnir og hvattir til að mæta í þjóðbúningi í tilefni dagsins, þeir sem hafa tök á því!

 

Safnadagskrá á Egilsstöðum

Í Safnahúsinu á Egilsstöðum verður opið frá kl. 10-18 og er frítt inn. Kl. 14 opnar listamaðurinn Guy Stewart sýningu á verkum sínum sem ber yfirskriftina Flugdrekabók og er óður til bókarinnar og bókmenningar, íhuguls lesturs og frelsis ímyndunaraflsins. Sýningin samanstendur af sjö flugdrekabókum sem hver og ein er tileinkuð fornu bókmenntaverki. Sýningin hefur verið sett upp á bókasöfnum bæði hér á landi og í útlöndum, m.a. á Borgarbókasafni Reykjavíkur, Amtsbókasafninu á Akureyri og Íslenska bókasafninu í Háskólanum í Manitoba. Við sama tækifæri verður nýtt krakkahorn tekið í notkun í Safnahúsinu en þar mun hreinkýrin Hreindís taka á móti krökkum í sumar.

 

Söngur í Fellabæ og dans á Seyðisfirði

Í Bókakaffi í Fellabæ er boðið upp á matarmarkað í tjaldi milli kl. 13 og 18. Þá er boðið upp á lifandi tónlist fram eftir degi þar sem ýmsir listamenn láta ljós sitt skína og endar með samsöng kl. 17.

Dansskóli Austurlands býður upp á sumardanssýningu á Seyðisfirði þar sem nemendur á aldrinum 4 til 14 ára og kennarar skólans sýna afraksturinn frá æfingum frá í febrúar. Sýningin hefst klukkan 14 á stóra bílastæðinu við Öldugötuna, dansinn mun svo fara yfir á Bjólfsgötuna við bláu kirkjuna og lýkur við regnbogagötuna klukkan 15. Á meðan sýningunni stendur verða götunum lokað fyrir umferð bíla.

 

Myndlist í Skaftfelli og Sláturhúsinu

Í Sláturhúsinu á Egilsstöðum verður fjölbreytt menningardagskrá þar sem boðið verður upp á sýningaropnanir, tónlist, fyrirlestur og léttar veitingar. Kl. 15 opnar sýningin Tengsl, sem er yfirlitssýning á verkum Ríkharðs Valtingojer og spannar ríflega 50 ára feril hans. Kl. 15:15 verða menningarverðlaun Fljótsdalshéraðs afhent, kl. 16 opnar sýningin Austfirskt fullveldi - Sjálfbært fullveldi, sem nýverið hlaut tilnefningu til íslensku safnaverðlaunanna og kl. 16:30 hefst út og kl. 16:30 hefst útgáfuhóf bókarinnar EKPHRASIS / PURE MOBILE vs. DOLCE VITA. Þar segir listakonan Monica Frycova frá ferðalagi sínu á mótorhjóli, með íslenskan saltfisk frá Borgarfirði eystri til Portúgal.

Í Skaftfelli á Seyðisfirði verður opnun á sumarsýningu á verkum Ingibjargar Sigurjónsdóttur frá kl. 16-18. Léttar veitingar verða í boði og eru allir velkomnir. Ingibjörg, sem býr og starfar í Reykjavík,  mun sýna eigin verk í formi teikninga, stafrænna prenta og skúlptúra, ásamt völdum verkum eftir listmálarann og leirlistamanninn Benedikt Guðmundsson (1907-1960). Ákvörðun Ingibjargar um að stilla saman verkum sínum og Benedikts hefur að gera með áhuga á grunneðli listsköpunar og formi hennar en þar að auki verður líf hans og starf tákn fyrir tíma, fjarlægð og fjarveru sem tengir saman alla skapandi iðju.

 

Ýmsilegt í boði

Á baðstaðnum Vök, við Urriðavatn, verður opið frá kl. 12-22. Þar verður í boðið happadrætti og frír safi fyrir börnin, sérstakar veitingar og tilboð á laugarbarnum.

Í Tehúsinu á Egilsstöðum verður matarbíll Evu Laufeyjar á staðnum frá kl. 18:30 og Ívar Andri og Júlíus leika nokkra eðaltóna. Lifandi tónlist verður á staðnum allt fram til lokunar kl. 23.

Í kvöld kl. 20 munu síðan Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn leika og syngja í Havarí á Karlsstöðum í Berufirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.