Helgi ber sig vel og heldur tónleika á Austurlandi

Hafi eitthvað skort á að íslenska þjóðin og Helgi Björnsson viðhéldu sambandi sínu undanfarin misseri, var sannarlega gerð bragarbót á því í gegnum samkomubannið og Covid-19. Helgi mætti samviskusamlega inn á hvort heimili, ásamt góðum gestum, og söng þjóðina í gegnum þetta erfiða tímabil. Nýsæmdur fálkaorðunni ætlar hann sér að heimsækja Austurland og halda þrenna tónleika, á Eskifirði, Borgarfirði og Egilsstöðum.

Tónleikaröðin nefnist Heima með Helga, líkt og sjónvarpstónleikarnir vinsælu, og að sögn Helga er markmiðið að nú upp svipaðri stemmingu.

„Já, við höfum verið að vinna með það. Við þurfum að vísu að sníða þetta aðeins að því að vera með áheyrendur í sal, það er svolítið öðruvísi en að vera fyrir framan sjónvarpsvélarnar. En engu að síður höfum við haldið svipuðu formi og var á þáttunum, fyrir utan að við verðum ekki með ljóðalesturinn í þetta sinn. En þetta er svona á léttum nótum og farið víða í lagavali. Bæði erum við að flytja mín þekktustu lög og síðan er farið um víðan völl. Vonandi get ég svo líka komið á óvart með góðum gestum.“

Helgi segist ánægður með að geta komið austur. „Ég hlakka mikið til. Það er orðið svolítið síðan ég kom síðast svo ég er bara fullur tilhlökkunar og gaman að geta farið aðeins víðar um svæðið en stundum áður. Ég hef til dæmis aldrei spilað í Fjarðarborg, þó ég hafi einu sinni komið fram á Bræðslunni á Borgarfirði, svo það verður mjög gaman að prófa það. Ég hef áður haldið tónleika og komið fram bæði í Tónlistarmiðstöðinni og í Valaskjálf en það er orðið svolítið síðan. Þetta verður ekkert nema skemmtilegt.“

 

Feiminn en stoltur

Eins og kunnugt er var Helgi sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á dögunum fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar og leiklistar.

„Maður verður kannski bara pínulítið feiminn fyrst, en auðvitað stoltur og ánægður með þessa viðurkenningu,“ segir Helgi um það hvernig tilfinning það sé að vera orðinn fálkaorðuhafi. „Allar viðurkenningar hljóta að vera af hinu góða og hvetja mann bara til áframhaldandi góðra verka.“

Það liggur beint við að spyrja hvort hann hafi getað séð fyrir að Heima með Helga myndi springa út með þeim hætti sem það gerði?

„Nei, ekki á þennan hátt sem þetta síðar varð. Ég hafði nú alveg trú á að fólk hefði áhuga á að fylgjast með þessu þannig að við myndum kannski gera þetta oftar en einu sinni. En ég sá ekki fyrir mér neitt í líkingu við það sem síðar varð, engan veginn.“


Töluvert fyrirtæki

Helgi býst ekki við öðru en góðri stemmingu á tónleikunum eystra. „Það hefur alltaf verið gaman að spila fyrir Austfirðinga og ég er viss um að það hefur ekki orðið nein breyting á því. Þetta hefur líka verið alveg ótrúlega skemmtileg stemming allsstaðar þar sem við höfum verið. Fólk er minnugt þáttanna og ég hef nú sagt að þetta sé í aðra röndina samfélagslegt verkefni. Það er ekki endilega ódýrt að ferðast með sjö manns, fljúga, keyra, fæða og klæða, og svo reynum við líka að stilla miðaverði í hóf. En okkur langaði til að þakka fyrir hvað áhorfendur voru sterkt með okkur í gegnum þættina. Það er rosalega gaman að geta tekið þetta aðeins lengra og gert þetta á þennan hátt.“

Tónleikarnir á Austurlandi verða á Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði á fimmtudag, Fjarðarborg á Borgarfirði á föstudag og Valaskjálf á Egilsstöðum á laugardag. Miðasalan er á vefsíðunni tix.is og Helgi hvetur fólk til að tryggja sér miða sem fyrst. Ekki sé hægt að stóla á að kaupa sig inn við innganginn. „Það hefur orðið uppselt á öllum stöðum þar sem við höfum spilað svo ég hvet fólk til að vera tímanlega.

 

Uppselt hefur verið á tónleika Helga fram að þessu. Mynd: Facebook/Hlégarður 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.