Helgin: Barsvar - Rock Star - Rifflar
Covid-19 mun hafa hefðbundin hátíðahöld sjómannadagshelgarinnar af Austfirðingum líkt og öðrum Íslendingum. En það þýðir ekki að það verði ekkert við að vera um helgina.Vertarnir í Já Sæll í Fjarðarborg á Borgarfirði opnuðu dyrnar í vikunni og standa á laugardagskvöld fyrir fyrsta viðburði sumarsins sem er spurningakeppni, svonefnt barsvar, þar sem allir geta tekið þátt. Óttar Már Kárason, einn af vertunum, segir barsvarið reglulegan viðburð í Fjarðarborg yfir sumartímann. Þar skipti meira máli að taka þátt og skemmta sér en að svara spurningunum endilega rétt. „Þetta verður með hefðbundnu sniði. Þema kvöldsins er „hafið“ en það er auðvitað teygt og togað eins og hægt er.“
Óttar sjálfur ber ábyrgð á spurningunum, ásamt Tinnu Jóhönnu Magnusson. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékkst ekkert að ráði upp úr honum um hvað þyrfti til að ná árangri í keppninni. „Það er ágætt ef menn hafa alist upp nálægt einhverskonar vatni, það getur hjálpað. Og það hjálpar að dusta rykið af menntaskólastærðfræðinni. Ég er ekki að segja að það verði margar spurningar sem byggja á henni, en það er líka gott upp á að reikna stigin og svona. Svo ætlum við bara aðalega að hafa gaman af þessu sjálf og það væri ekkert verra ef einhverjir aðrir hafa það líka.“
Barsvarið hefst kl. 20:30 en opið er í veitingasalinn þar á undan og mæla vertarnir með steiktum þorski, sem góðum undirbúningi.
Tónleikar í Tehúsinu
Borgfirðingar verða annars áberandi á viðburðum helgarinnar því einn þeirra, Magni Ásgeirsson, mun hefja gítarinn á loft í Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld þar sem hann flytur flest sín uppáhalds lög. Þá hefur heyrst að félagar Magna, The Hafthors, muni heiðra samkomuna með nærveru sinni og taka nokkur lög með honum. Tónleikarnir hefjast 20:30 og opið er til 23:00. Minnt er á takmarkað sætaframboð en forsala stendur yfir.
Riffliskyttur reyna með sér
Skotfélag Austurlands stendur fyrir mótatvennu um helgina. Á laugardag fer fram Refurinn 2020 og hefst kl. 10:30. Á mótinu er 10 skotum skotið á refaeftirlíkingar á 50 - 500 metra færi, en færin verða ekki gefin upp. Allir rifflar, kalíber og sjónaukar eru leyfðir, sem og farlægðarmælar og keppendur fá 16 mínútur til þess að skjóta þessum 10 skotum. Skotið er liggjandi, tvífótur er leyfður og einnig veiðistuðningur að aftan á borð við úlpu, vettlinga, skotabox, fjarlægðarmæli og annað sem reikna má að sé með í för á veiðum.
Á sunnudag kl. 10:30 er síðan svonefnt A Class mót. Skotið verður liggjandi, tvífætur, sandpokar og rest leyfð og allir rifflar upp að 35 kalíberum. Fyrst er skotið 10 skotum á 300 metra færi og síðan sama fjölda á 500 metrum, en byrjað á 3 stilliskotum á hvoru færi og hefur keppandi 15 mínútur til að klára skotin í hvort skipti.
Markaðir og myndlist
Á laugardag, milli kl. 11 og 16, stendur Múlasýsludeild Rauða krossins fyrir svonefndum kílóamarkaði í Samfélagssmiðjunni á Egilsstöðum. Þar eru til sölu notuð föt af öllu tagi og mestmegnis selt eftir vigt. Þá opnaði Salthúsmarkaðurinn á Stöðvarfirði dyr sínar í dag. Þar er til sölu handverk af ýmsu tagi og verður markaðurinn opinn alla daga í sumar milli kl. 10 og 17.
Í Neskaupstað stendur Menningarstofa Fjarðabyggðar, í samstarfi við Skaftfell á Seyðisfirði, fyrir ljósmyndasýningu í Þórsmörk. Sýningin nefnist TÍRA og listamaðurinn Bjargey Ólafsdóttir en hún nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands sem og Myndlistarakademíuna í Helsinki, ljósmyndun við Aalto University í Helsinki og kvikmyndagerð við Binger Filmlab í Amsterdam. Bjargey var tilnefnd til ljósmyndaverðlaunanna Deutsche Börse Photography prize og the Godowski Colour photography Award fyrir ljósmyndaseríuna Tíru sem hún sýndi fyrst í Ljósmyndasafni Reykjavíkur árið 2009. Seríuna ljósmyndaði Bjargey á Seyðisfirði í listamannadvöl í Skaftfelli árið 2008.
Sýningin opnar í dag og stendur opnunin yfir frá kl 17-19. Boðið verður upp á léttar veitingar. Sýningin er að öðru leyti opin mánudaga til föstudaga, milli kl. 14 og 17.