Helgin: Matarveislur og barnamenning
Helgin verður sannkölluð matarveisla á Austurlandi. Matarhátíð verður á Djúpavogi þegar Cittaslow-sunnudagurinn verður haldinn þar í sjötta skipi. Þá verður uppskeruhátíð Móður jarðar á Vallanesi og matreiðslunámskeið á Seyðisfirði þar sem þátttakendur læra að elda mat frá Pakistan.
Cittaslow-sunnudagurinn er haldinn ár hvert síðasta sunnudag í september í öllum aðildarsveitarfélögum Cittaslow. Markmiðið hans er alltaf að kynna staðbundna framleiðslu, menningu og/eða sögu.
„Cittaslow sunnudagurinn er eini fasti viðburðurinn sem fylgir því að vera Cittlaslow eins og við erum hérna á Djúpavogi. Oft hefur þetta verið matartengt hjá okkur, bara mismunandi þemu. Einu sinni var það sauðkindin og þá var það auðvitað matarkyns með áherslu á ullina líka og fleira. Þá sýndi fólk til dæmis hvað það er að búa til úr ullinni héðan af svæðinu, en það er birtingarmynd Cittaslow í sinni hreinustu mynd, að nýta og nota afurðir og krafta úr heimabyggð“ segir Greta Mjöll Samúelsdóttir, atvinnu- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps.
Átján þjóðerni í Djúpavogshreppi
Að þessu sinni verður lögð áhersla á alþjóðlega matargerð í Djúpavogshreppi og stendur dagskráin frá klukkan 13:00-16:00 í Löngubúð þar sem gestum er boðið að bragða á afurðum og njóta fjölbreytileikans.
„Í Djúpavogshreppi býr fólk frá átján þjóðernum og við ætlum að fagna fjölbreytileikanum og sýna hann í gegnum matarmenningu. Þetta rímar við Cittaslow-stefnuna, en matur sameinar alla undir einum hatti því öll eldum við og borðum mat. Þetta er líka flottur vettvangur fyrir fólki að sýna hvaðan það kemur í grunninn og sameinast svo við Djúpavogshrepp með því að elda mat frá sínu heimalandi úr hráefni úr og í Djúpavogshreppi. Cittaslow hugsunarhátturinn er einmitt að nýta það sem til og aðlaga það að sínu. Í leiðinni kynnist fólk svo auðvitað og það brúar bilið á milli okkar allra.“
Stóri tónlistardagurinn í Sláturhúsinu á Egilsstöðum
Stóri tónlistardagurinn verður haldinn í Sláturhúsinu menningarsetri á Egilsstöðum á morgun, laugardag. Er hann liður í BRAS- menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi sem haldin hefur verið í nokkrum sveitarfélögum í september með margvíslegum smiðjum, verkefnum og viðburðum.
Stóri tónlistardagurinn byggist upp á smiðjum og námskeiðum undir stjórn frábærs tónlistarfólks og endar á pop up tónleikum þar sem ungt og efnilegt tónlistarfólk verður með djammsessjón. Viðburðurinn er miðaður við aldurshópinn 13 – 20 ára, þó yngri og eldri megi fljóta með. Þátttakendur skrá sig við komu en þátttakan er endurgjaldslaus.
Pétur og úlfurinn í Fellabæ og Breiðdalsvík
NA5 kvintettinn flytur tónverkið Pétur og úlfurinn í Fellabæ og á Breiðdalsvík á morgun, laugardag. Um samstarfsverkefni við Tónlistarmiðstöð Austurlands er að ræða, en því er ætlað að auka menningarlæsi barna í fjórðungnum. Sýningin er aðeins 25 mínútur að lengd og í lokin fá börnin að hitta hljóðfæraleikarana og skoða sjálfan úlfinn!
Uppskeruhátíð Móður jarðar á Vallanesi
Grænmetismarkaður og léttar veitingar í anda árstíðaskipta verða í Vallanesi á Héraði á morgun. Sýnikennsla og uppskriftir í Asparhúsinu um hvernig má geyma grænmeti og matbúa girnilega rétti með hráefni úr jurtaríkinu.
Lærðu að elda Pakistanskan mat
Azfar Karim frá Pakistan, sem ætlar að kenna matargerð frá sínu heimalandi á Seyðisfirði á laugardaginn. Námskeiðið er ókeypis en aðeins er pláss fyrir átta þátttakendur þannig að betra er að hafa hraðar hendur við skráningu.