Helgin; „Við spilum þetta af fingrum fram“
„Þetta á að vera semí þjóðlegt og ferlega skemmtilegt,“ segir Pétur Kristjánsson, forstöðumaður Tækniminjasafns Austurlands á Seyðisfirði, um árlega Smiðjuhátíð safnsins sem hefst í dag.
„Hjá okkur verða þessi hefðbundnu námskeið í eldsmíði, steinprenti, dúkristu og fleiru. Einnig verða tálgunarnámskeið, hnífasmíðanámskeið og tvö ljósmyndanámskeið, annað 19. aldar ljósmyndun og hitt svokallaðar sólarmyndir, en við fáum nú aldeilis veðrið í það í dag. Við verðum einnig með reyndan loftskeytamann sem ætlar að kenna grunnatriði í „morse“ og kenna fólki að búa sér til morse-lykil sem virkar sem það getur tekið heim með sér. Þá verða tónleikar í kvöld og Alþjóðlega dansbandið heldur uppi stuðinu á bryggjuballinu á morgun,“ segir Kristján, en hægt er að lesa meira um hátíðina á Facebook-síðu hennar.
Veitingahúsið Brasserei Angró verður svo á sínum stað. „Veitingahúsið okkar verður í bryggjuhúsinu auk þess sem við verðum með tjald á bryggjunni. Þar verða að sjálfsögðu boðið upp á kótilettur í raspi í dag, með kartöflum, grænum baunum, rauðkáli og rabbarbarasuldu. Þá verðum við með kaffi, flatbrauð og heimabakaðar kökur og brauð alla helgina og svo eldsteikt læri á morgun,“ segir Kristján og bætir því við að maturinn verði á mjög viðráðanlegu verði.
Kristján segir hátíðina aldrei mjög fjölmenna. „Þetta er svona lágstemmd hátíð, við erum ekki að keppa við neinn, bara að halda eitthvað fyrir okkur og hina. Við spilum þetta af fingrum fram, það er skemmtilegt að nýta öll þessi verkstæði sem við eigum hér á Seyðisfirði.“
Austfirðingar og gestir hafa svo um margt annað að velja um helgina;
Bræðslan á Borgarfirði
Bræðslan var sett á Borgarfirði í gær. Tvennir tónleikar verða á Borgarfirði í kvöld, druslugangan verður á sínum stað á morgun og að sjálfsögðu sjálfir Bræðslutónleikarnir annað kvöld. Hér má lesa frétt um Bræðsluhelgina.
Franskir dagar á Fáskrúðsfirði
Franskir dagar verða formlega settir á Fáskrúðsfirði í kvöld og standa fram á sunnudag. Að vanda er dagskráin hin glæsilegasta en hér má lesa frétt um hátíðina.
Urriðavatnssund
Urriðavatnssund verður þreytt á laugardagsmorgun. Um 180 sundkappar taka þátt og vill mótshaldari hvetja fólk til þess að koma og hvetja þá á bakkanum. Hér má sjá frétt um sundið.
Opið hús í Valþjófsstað í Fljótsdal
Ástralskur hugvitsmaður hefur í sumar byggt upp aðstöðu til að rækta bæði matjurtir og fiska í gömlu hænsnahúsi á Valþjófsstað í Fljótsdal. Hann segir inniræktun áhugaverðan valkost fyrir Íslendinga sem búi við langa dimma vetur og flytji inn mikið af matvælum en hafi ódýrt rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Á morgun, laugardag, verður opið hús milli 12:00-18:00 fyrir þá sem vilja kynna sér verkefnið.