„Hljómurinn alveg eins og ég vildi hafa hann“

Snorri Páll Jóhannsson átti sér þann draum um að smíða sinn eigin gítar. Sem skógarhöggsmaður hjá Skógræktinni á Hallormsstað lá beint við nýta sér efnivið sem félli til í vinnu Skógræktarinnar. Hann þurfti aðeins að bíða en fann loks efni sem honum þótti tilvalið til smíðinnar.

„Ég hafði verið að horfa í kringum mig í vinnunni hvort það væri eitthvað efni sem ég gæti nýtt. Mig langaði helst að ná að gera búkinn úr einu stykki en ekki límtré. Svo sá ég þennan trjábol úti á plani,“ segir Snorri Páll gítarsmiður.

Úr 56 ára gömlu tré

Trjábolurinn var hluti af stafafuru sem gróðursett hafði verið sem hluti af trjálundi í Trjásafninu á Hallormsstað árið 1964. Fyrir fjórum árum þurfti að fella tréð, sem var orðið töluvert bolmikið, því brotnað hafði ofan af því.

„Bolurinn var búinn að liggja á hlaðinu mjög lengi og alveg ónýttur. Svo ég stakk upp á því við Fúsa félaga minn (Sigfús J. Oddson) hvort við ættum ekki að fletta bolnum og saga hann niður í borð. Ég nýtti svo efnið í gítarsmíðina.“

Hann gat ekki þó ekki hafist handa strax því þurrka þurfti viðinn í ákveðinn tíma áður en unnið var með hann. „Þegar við höfðum sagað bolinn niður eins og við vildum röðuðum við borðunum í gám sem er sérstaklega nýttur til þurrkunar. Viðurinn var í gámnum í svona þrjár til fjórar vikur. Því næst tókum við efnið út og geymdum það við stofuhita tvo til þrjá mánuði eða þar til við höfðum náð viðnum niður fyrir átta prósent í raka. Þá er hægt að fara að vinna með viðinn,“ útskýrir Snorri Páll.

Hann gat svo í byrjun febrúar hafist handa við að smíða gítarinn og þann 18. apríl síðastliðinn var gítarinn tilbúinn.

Furan hentar vel

Snorri segir að furan henti vel til gítarsmíði og hefur hún verið notuð áður. Hún sé að vísu mjög mjúk og það þurfi því ekki mikið til að fá dæld í hann. „Við Fúsi töluðum við Guðmund Höskuldsson, gítarsmið í Neskaupstað, og fengum hjálp og ráðleggingar. Ég verð að þakka honum kærlega fyrir alla hjálpina,“ segir hann.

Þegar búkurinn var tilbúinn setti Snorri gítarinn saman. Hann keypti tilbúinn háls, bönd og rafkerfið sem þarf í rafmagnsgítara.

Furu-góður hljómur

Þegar Snorri er spurður út í hljóminn segir hann ánægður hann vera mjög góðan. Alveg eins og hann vildi hafa hann.  „Allt sem ég keypti í hann, sem ég smíðaði ekki sjálfur, kostaði sitt því ég vildi að þetta yrði vandað. Hljómurinn er alveg eins og ég vildi hafa hann. Fyrirmyndin var Fender Stratocaster og ég var að leitast eftir klassískum Stratocaster tón. Ég valdi þess vegna gamaldags „vintage speck“ rafkerfi í hann og hafði allt mjög gamaldags,“ segir Snorri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.