Jólabókaflóðið - Langstærsta skáldverkaár íslenskra rithöfunda

Flestir Íslendingar kaupa jólabækurnar í Nettó, Bónus og öðrum matvöruverslunum, enda hefur verð á bókum þar verið frá 20-50% lægra en í bókabúðum fyrir jólin mörg undanfarin ár.

300 bókatitlar eru kynntir til sögunnar í Nettó á Egilsstöðum. Langflestar bækurnar eru nýjar, gefnar út á þessu ári. Ingibjörg Kristín Gestsdóttir, verslunarstjóri, segir að ekki séu allir titlarnir frammi á borði í versluninni í einu, skipt verði um bækur og nýjar settar fram um leið aðrar seljast upp. Bækurnar komi heldur ekki allar á einu bretti austur og enn séu nokkrir titlar ókomnir.

Í Bónus á Egilsstöðum eru um 150 bókatitlar skráðir, en þeim á eftir að fjölka þegar kemur fram í desember. Þar er sömu sögu að segja og í Nettó, bækurnar koma austur í skömmtum.

Fyrsti bóksölulisti Félags bókaútgefanda yfir söluhæstu bækur ársins hefur nú verið birtur. Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi bókaútgefenda segir í samtali við visi.is í dag að árið 2019 sé langstærsta skáldverkaár íslenskra rithöfunda, hvort sem litið er til skáldverka, ljóða eða barnabóka. 19 nýjar glæpasögubækur komi út fyrir jólin, svo dæmi sé tekið, og ný kynslóð rithöfunda sé að spretta fram í ljóðum og skáldsögum.

Bryndís segir að jólabókaflóðið sé varla byrjað og bóksölulistinn í nóvember gefi ekki endilega rétta mynd af framhaldinu, hann muni taka á sig skýrari mynd eftir viku. Tveir ungir rithöfundar séu hins vegar komnir með tvo titla á listann, Ævar Þór Benediktsson og Birgitta Haukdal, söngkona, sem nú markar sér slóð sem rithöfundur.

„Ævar Þór hefur reyndar af nógu að taka enda afkastamesti barnabókahöfundur þessarar vertíðar, með 5 nýjar bækur en næst á eftir honum er Bergrún Íris Sævarsdóttir sem gefur út 4 nýjar barnabækur í ár,“ segir Bryndís í samtali við visi.is.

Semsagt: Spennandi bókajól og jólabókaflóð framundan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.