Skip to main content

Köld splunkuný tónlistarhátíð í Neskaupstað

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. feb 2020 10:24Uppfært 12. feb 2020 10:25

Tónlistarhátíðin Köld verður haldin í Neskaupstað 20-23.febrúar. Hátíðin er bætist við blómlega flóru tónlistarhátíða á Austurlandi en sú eina sem fer fram í svartasta skammdeginu. Á hverju ári mun hátíðin í samstarfi við Tónlistarmiðstöð Austurlands heiðra austfirskan tónlistarmann fyrir starf sitt.


Jón Hilmar Kárason, tónlistarmaður og annar skipuleggjandi tónlistarhátíðarinnar segir að þeim hafi fundist eitthvað vanta í tónlistarflóruna á þessum tíma.

„Við erum alltaf að skoða og leita að einhverju til lífga upp á mannlífið hérna og okkur datt þetta í hug í fyrra, að vera með tónlistarhátíð yfir vetrartímann. Okkur fannst eitthvað vanta á þessum árstíma. Svo fannst okkur bara svolítíð kúl að vera með tónlistarhátíð í febrúar.“

Athygli vekur að valin er heiðurslistamaður hátíðarinnar og verður þetta gert á hverju ári.

„Við veljum hann í samstarfi Tónlistarmiðstöð Austurlands. Við vildum gera þetta því okkur finnst mikilvægt að heiðra tónlistarmenn á austurlandi því að okkar mati hafa þeir ekki fengið þá viðurkenningu sem þau eiga skilið.“

Í ár er það Guðmundur R. Gíslason sem verður heiðurslistamaður hátíðarinnar. „Gummi gerði garðin frægan með SúEllen en svo hefur hann átt og á enn flottan sóloferill. Hann er líka að gefa út sína þriðju sólóplötu þann 19. febrúar, á 50 ára afmælisdaginn sinn,“ segir Jón Hilmar

Í tilkynningu frá hátíðarhöldurum segir að þeir sem hafa komið á Eistnaflug vita að það er alls ekki neitt að því að vera austur í rassgati á tónlistarhátíð og þannig er það líka yfir vetrartímann.

„Þetta er alveg hárrétt. Það skapast alltaf sérstök stemning í Egilsbúð eins og margir þekkja og það er engin ástæða til að búast við öðru núna þegar þessi listamenn stíga á svið.“

Á fimmtudeginum mun KK spila allar sínar perlur og segja frá allri gæfunni og örlítið af ógæfunni sem ferill hans hefur boðið uppá. Á föstudagskvöldið verður heiðurslistamaðurinn Guðmundur R heiðraður af fjölda ólíkra listamanna sem flytja lögin hans Gumma bæði í nýjum og gömlum búningi.

„Laugardagurinn verður mjög líflegur í bænum því við munum bjóða uppá viðburði og tónleika í bænum yfir daginn. Við erum að klára að skipuleggja hann og svo munum við tilkynna nánari dagskrá á allra næstu dögum,“ segir Jón Hilmar. Tónlistarmaðurinn Auður verður svo með tónleika ásamt hljómsveiti sinni í Egilsbúð um kvöldið.

„Rúsínan í pylsuendanum er svo tónleikar Magnúsar og Jóhanns í Norðfjarðarkirkju kl.16 á sunnudeginum en þeir félagar eiga ótrúlegan fjölda laga sem allir þekkkja.“ segir í einnig í tilkynningunni.

„Það verður allt í blóma í Neskaupstað í febrúar. Allt mun yða af gleði og hamingju, sérstaklega helgina 20 - 23 febrúar. Við erum rosalega spenntir og lofum virkilega góðri skemmtun,“ segir Jón Hilmar að lokum.