List í Ljósi flýtt um einn dag vegna veðurs

Listahátíðin List í Ljósi fer fram í fimmta sinn nú um helgina. Eins og fyrri ár verður Seyðisfjörður upplýstur í myrku skammdeginu og fagnar um leið hækkandi sól. Búast má við töfrandi ljósadýrð sem allir geta notið. Vegna veðurs hefur opnunarhátíðinni verið flýtt og er því fimmtudaginn 13. febrúar. Hátíðin stendur til laugardags.


„Hátíðin stækkar bara frá ári til árs. Við fengum Eyrarrósina í fyrra. Það var mjög mikil viðurkenning sem við erum mjög stolt af og þess vegna sjáum við um móttöku fyrir afhendingu Eyrarrósarinnar 2020 áður en hátíðin verður sett.

En vegna veðurs þurftum við að breyta dagskránni og höfum því flýtt afhendingunni yfir á fimmtudag,“ segir Sesselja Jónasardóttir framkvændastjóri og annar skipuleggjanda hátíðarinnar.

Athöfnin hefst klukkan 17:00 og mun Elisa Reid, forsetafrú koma og afhenda viðurkenninguna í móttökunni. Hátíðin heldur svo áfram á föstudag og lokadagurinn verður á laugaradaginn.

„Hátíðin er orðin algerlega föst í sessi. Hún er einstök því stærðin á bænum gefur okkur svo marga möguleika að vinna með. Það er ekkert allstaðar þar sem hægt að slökkva hvert einasta ljós í bænum til dæmis.

Það eitt og sér hefur mikið aðdráttarafl og því mjög auðvelt að fá listamenn til að taka þátt. Við þurfum að segja nei mjög marga, sem er lúxusvandamál. Listamönnum að finnst mjög spennandi vinna í þessum aðstæðum,“ segir Sesselja.

Í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar segir að mikið verði af ólíkum listaverkum eins og skúlptúrum, myndvörpun, hljóð og videoverkum sem listamennirnir hafa mótað að staðháttum og fagna þar með ljósinu eftir fjóra mánuði í skammdegi.

„Gestir geta átt von á fágætu sjónarspili sem hyllir landslagið og umhverfið allt. Í febrúar heldur vetur konungur náttúru Seyðisfjarðar í heljargreipum og oft er ófært í fjörðinn. Því má með sanni segja að hátíðin sé fyrir þá ævintýragjörnu. Hugsið ykkur! Upplýstir fossar, framsækin vídjóverk vörpuð á veggi húsanna í bænum og ævintýralegir skúlptúruar sem bráðna inní landslagið,“ segir Celia Harrison hinn framkvæmdastjóri hátiðarinnar

Sesselja segir að tilurð hátíðarinnar hafi sprottið upp úr samtali þeirra Celiu Harrison listamanns frá Nýja Sjálandi, en hún er listrænn stjórnandi hátíðarinnar. „Celia hafði haldið svipaðar hátíðir í sínu heimalandi og okkur fannst Seyðisfjörður henta vel sem staðsetning fyrir hátíðina. Fjarvera sólarinnar í Seyðisfirði hafði líka mikið að segja og var tímasetningin ákveðin í ljósi þess að á þessum dögum lætur sólin sjá aftur eftir að hafa verið fjóra mánuði í felum.

Við hlökkum mjög til og vonum innilega að sem flestir komi og njóti með okkur,” segir Sesselja að lokum.


Seyðisfjörður lýstur upp sem aldrei fyrr. Myndir frá hátíðinni í fyrra.  Myndirnar eru aðsendar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.