Skip to main content

Lundinn kom að kvöldi skírdags

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. apr 2020 14:50Uppfært 17. apr 2020 14:53

Rúm vika er frá því að lundinn settist upp í Hafnarhólmann á Borgarfirði. Það gerði hann að kvöldi skírdags. Útlit er fyrir að heldur færri heimsæki fuglinn í hólmanum í ár heldur en síðustu ár.


„Það veltur mikið á árferðinu og veðrinu hvenær lundinn sest upp. Magnús Þorsteinsson, bóndi í Höfn, sagði að hann kæmi á bilinu 1. – 15. apríl og skráði það samviskusamlega hjá sér.

Ég tók meðaltalið af því og segi að hann komi þann sjöunda klukkan hálf átta,“ segir Jón Þórðarson, sveitarstjóri Borgarfjarðarhrepps.

Í ár kom lundinn að kvöldi skírdags, fimmtudagsins 9. apríl, samanborið við þann sjötta í fyrra. „Fuglarnir setjast fyrst upp undir kvöldið, þeir komu fljúgandi milli klukkan sex og átta þarna um kvöldið. Lundinn hvarf síðan í tvo daga en ég sé að hann er byrjaður að róta upp og gera sig kláran.“

Fyrstu dagarnir eftir komuna fara í tilhugalíf fuglanna. Hvert par eignast eitt egg sem fuglarnir skiptast á að liggja á. Fuglarnir fljúga síðan af landi brott upp úr verslunarmannahelgi. „Lundinn stoppar í um 100 daga, ég segi að hann fari klukkan tvö þriðjudaginn eftir verslunarmannahelgi,“ segir Jón.

Undanfarin ár hafa Borgfirðingar tekið formlega á móti lundanum með samkomu í Hólmanum að kvöldi sumardagsins fyrsta. Ekki er útlit fyrir að neitt verði af því í ár vegna samkomubanns. Þá er útlit fyrir að talsvert færri ferðamenn heimsæki lundabyggðina í ár vegna covid-19 faraldursins en verið hefur en ríflega 45 þúsund manns fóru upp í hólmann á síðasta ári.

Nýtt aðstöðuhús fyrir svæðið er nánast tilbúið. Auglýst var eftir rekstaraðila fyrir það í vetur og er verið að semja um reksturinn núna.

En þrátt fyrir erfiðan vetur á Borgarfirði og síðan heimsfaraldur segir Jón að lífríkið í firðinum sé í blóma. „Hér hefur verið mikið af sel og fugli. Langtímum saman í vetur var hér fullt af hval, líklega að elta loðnu,“ segir hann.