Skip to main content

Lýst er eftir grútarblautum fálka

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. feb 2020 12:15Uppfært 19. feb 2020 14:40

Náttúrustofa Austurlands leitar eftir upplýsingum um grútarblautan fálka sem sést hefur á þvælingi undanfarið í kringum svæðið frá Ormsstöðum að Naustahvammi í Norðfirði. 

 
„Ég tók eftir honum þegar ég var að skutla dóttur minni á æfingu sunnudaginn var og gat því miður ekki fylgt honum eftir. Ég ætlaði að skoða hann betur þegar ég kæmi til baka því ég tók eftir því að hann var talsvert grútarblautur og taldi að hann færi því ekki langt. En hann var horfinn þegar ég kom,” segir Hálfdán Helgi Helgason fuglavistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.

Hann ásamt öðrum fóru um svæðið í leit að fálkanum og ræddu við fólk á svæðinu sem sagðist hafa orðið hans var í einhvern tíma. 

„Það geta verið ýmsar ástæður fyrir grútnum. Við sáum selshræ í janúar sem hann gæti hafa komist í, svo eru grútarpollar hér og þar sem hann hefur getað lent í eftir að hafa farið á eftir máfum til dæmis. Það geta verið ótal ástæður fyrir grútnum,“ segir hann.

Á Facebook-síðu Náttúrustofunnar segir: „Ef einhver hefur séð til kauða frá því á sunnudaginn væri vel þegið að fá að heyra af því. Myndirnar voru teknar af honum síðastliðinn sunnudag.“


Fálkinn grútarblautur. Ath.: Það er ekki nafn fálkans heldur lýsing á ástandi hans. Mynd: Hálfdán Helgi Helgason