„Maður lifir ekki árið án þess að fara í Mjóafjörð“

Anna Vilhjálmsdóttir kennari ólst upp á Brekku í Mjóafirði. Hún upplifði spennandi og fjöruga æsku og alltaf til í að prófa að takast á við ný ævintýri. Nýverið setti hún kennaraskóna á hilluna eftir yfir 40 ár í starfi sem handavinnukennari.

 

Anna fögrum orðum um æskuár sín og það er greinilegt frá fyrstu mínútu að Anna er mjög jákvæð að eðlisfari. „Það var bara yndislegt í alla staði að alast upp í Mjóafirði. Bara rosalega gaman og aldrei dauð stund,“ segir hún.

Hún er dóttir hjónanna Önnu Margrétar Þorkelsdóttur húsmóður og Vilhjálms Hjálmarssonar fyrrverandi menntamálaráðherra. 

 

Þrjár kynslóðir og gömul kona

Þegar Anna var að alast upp bjuggu auk foreldra hennar afi hennar og amma á Brekku og svo afabróðirhennar.

„Svo var líka gömul kona heima sem hét Guðrún. Hún var langafasystir mín. Ég var tíu ára þegar hún dó. Ég man alltaf eftir því að þegar hún dó þá langaði mig alltaf svo að sjá hana, sjá ofan í kistuna. 

Ég hætti ekki fyrr en ég fékk að sjá hana í kistunni. Það var búið að búa hana til greftrunar og ég var svo spennt en svo var ég svo hissa þegar ég sá hana. 

Ég hugsaði að það væri alveg eins og að hún svæfi bara. Ég bjóst við einhverju öðru, einhverju verra,“ segir Anna og hlær. 

 

Lórelei og eplalykt

„Pabbi var léttur og skemmtilegur. Hann las mjög mikið fyrir mig, allskonar bækur. Svo var eitt sem var alveg yndislegt. 

Ég elti pabba oft út í fjós þegar hann fór að mjólka á kvöldin og bað hann þá um segja mér söguna um Lórelei,meyna sem steypti sér í djúpið,“ segir Anna.

Vilhjálmur var eins fram hefur komið lengi þingmaður og um tíma ráðherra en kenndi og vann ýmis störf á milli þingsetu. 

„Ég var svo sem ekkert að spekúlera í því nema kannski þegar hann kom heim um jólin. Hann kom heim rétt fyrir jól þegar þingi var slitið og það var svo gaman, því þá kom hann heim með kassa af eplum. 

Ég man svo vel eftir lyktinni, hún var svo góð. Ég var stundum að stelast niður í kjallara og þefa af eplunum. Það er ekki svona lykt af eplum í dag. Ég gleymi þessu aldrei.“ 

 

Spes dagur

„Svo var líka eitt á veturna, bolludagurinn. Hann var alveg spes dagur hjá okkur krökkunum, sérstaklega stelpunum. 

Við vöknuðum um miðja nótt og fórum á milli bæja og flengdum fólkið á hverjum bæ, en yfirleitt voru það karlarnir sem fengu að kenna á því. Þetta var alveg svaka skemmtilegt. Svo var okkur alltaf boðið í bollukaffi á bæjunum.“ 

Eitt er það sem Anna segir þó vera alveg sérstaklega minnistætt við þessar ferðir en það voru góðgerðirnar hjá elstu hjónunum í Mjóafirði þá. 

„Þar var hún Jóhanna á Eyri sem bakaði kramarhús, alveg svakalega flott, með þeyttum rjóma og ávöxtum úr dós. Þetta fannst manni alveg ofboðslega gott. Við enduðum oftast hjá þeim.“

 

Mublerað upp fyrir síldarpeninga 

„Fyrsta síldarsumarið var 1964 minnir mig. Ég var ellefu ára og var sett í að salta. Það var oft byrjað klukkan fjögur eða fimm á nóttunni og allir auðvitað ræstir þegar báturinn kom,“ segir Anna

 „Mér fannst þetta svo spennandi að taka þátt í þessu öllu saman. Fylgjast með öllu fólkinu, sérstaklega unglingunum sem komu að. Þetta var algjör upplifun fyrir mig,“ segir Anna. 

Hún bendir líka á að á þessum árum hafi þetta eflaust verið fyrsta og eina skiptið sem húsmæður fór út að vinna. „Það þurftu allir að vinna og húsmæðurnar, þar á meðal mamma, fóru að vinna. Þær fengu svo borgað. 

Þá voru keypt húsgögn eða „mublerað upp“ sem var svolítið skemmtilegt. Mamma keypti til dæmis alveg svakalega flott borðstofuhúsgögn úr tekki.“

 

Seyðisfjörður, Eiðar og Kennó

Þegar Anna var þrettán ára fór hún til bróður síns á Seyðisfirði og var þar í skóla í einn vetur. Veturinn eftir fór hún í Eiða þar sem hún tók landsprófið á einum vetri sem fólk gerði oft til að flýta fyrir sér.

„Þaðan fór ég beint í Kennaraskólann. Ég ákvað það á Eiðum að fara þangað. Þá var ég bara 15 ára. Ég útskrifaðist svo sem kennari árið 1973, þá 19 ára.“  

 

Gæi var algjör gæi

Anna kynnist manni sínum, Garðari Eiríkssyni framkvæmdastjóra, meðan hún var í Kennaraskólanum.

„Ég kynnist Gæa í gegnum skólabróður minn og æskuvin hans. Við giftum okkur 1974. Garðari bauðst svo vinna á Grundafirði og við ákváðum að kýla á það.“

Anna segir að þeim hafi alltaf þótt það spennandi að flytja út á land.

„Ég fór að kenna á Grundarfirði en Garðar tók við sem útibússtjóri í gamla Samvinnubankanum þar.“

Þaðan lá leiðin á Selfoss þar sem þau búa í dag. „Ég fór að kenna. Kenndi fyrst hérna úti í Þingborg. Þar var barnaskóli og ég kenndi handavinnu þar.

Svo lá leiðin niður á strönd á Eyrabakka og Stokkseyri. Þar kenndi ég í 25 ár eða þar til í fyrra þegar ég fór á eftirlaun.“

 

Mjóifjörður í dag

Þau Garðar fara á hverju sumri til Mjóafjarðar. „Við eigum hús þar með bróður mínum og förum alltaf á sumrin. Kannski förum við að fara eitthvað yfir vetrartímann þegar við Garðar erum bæði hætt að vinna,“ segir Anna og glottir.

Þegar Anna er spurð hvers hún sakni mest frá Mjóafirði er hún ekki lengi að svara. „Það er bara þessi yndislegi staður, friðsældin, náttúran og náttúrulega fólkið mitt. Maður lifir ekki árið án þess að fara til Mjóafjarðar.“ segir hún að lokum. 

 

Anna Vilhjálmsdóttir frá Brekku.  Mynd: BKG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.