Nýta nútímatækni til að skrásetja hreindýr

Náttúrustofa Austurlands (NA) opnaði nú á dögunum hreindýravefsjá sem ætlað er að halda utan um skráningu á hagagöngu hreindýra. Þetta auðveldar fólki til muna að veita upplýsingar um hvar hreindýrin halda sig og hvenær.

Búið er að gera þá skráningu aðgengilegri og geta áhugasamir skráð hreindýr sem á vegi þeirra verða jafnóðum í gegnum snjallsíma og -tæki og jafnvel sent inn myndir eða myndskeið.

„Í gegnum tíðina hafa upplýsingar frá almenningi um hvar hreindýr sjást verið mikilvægur þáttur í vöktun hreindýra á Austurlandi. Fyrst var það auðvitað bara í gegnum síma og í almennum samtölum manna á milli sem var svo skráð í gagnagrunn. Okkur fannst bara sjálfsagt að ganga inn í nútímann og nýta okkur það afl sem felst í fjöldanum sem er nú oftast sítengdur og með myndavélar á sér,“ segir Kristín Ágústsdóttir forstöðumaður Náttúrustofunnar.

Hún segir að upplýsingarnar nýtist meðal annars við að meta ágang af völdum hreindýra auk þess sem það gefur einfaldlega fyllri mynd af því hvar dýrin halda sig á ólíkum tímum ársins.

Á vefsíðu Náttúrustofunnar segir að einnig sé hægt að sjá eldri skráningar. „Nú þegar er hægt að skoða flestar tilkynningar frá almenningi fyrir árin 2015-2018. Upplýsingar frá almenningi eru dýrmætar við gagnaöflun vegna vöktunar hreindýra og viljum við hvetja alla til að skrá hreindýr sem þau sjá.“

Ef vel tekst til gætu upplýsingar úr vefsjánni jafnvel nýst til að vara frekar við hreindýrum á vegum.

Starfsmenn Náttúrustofunnar sáu um gerð vefsjárinnar og var verkefnið styrkt af Vinum Vatnajökuls og Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.