„Ofboðslega spennandi og skemmtilegt að taka við keflinu“ 

Kommablótið í Neskaupstað var haldið síðastliðinn laugardag . Fyrsta blótið var haldið árið 1965 og þá gátu aðeins flokksfélagar fengið miða og boðið með sér gestum. Blótið var síðan opnað en nafninu var ekki breytt og ýmsum hefðum haldið. Nú hefur ný hefð verið búin til því í fyrsta sinn var valin Kommablótsnefnd sem sjá á um skipulagningu næsta blóts.  

  

Er þetta fyrsta nefndin sem er formlega skipuð. Hópurinn sem séð hefur um skipulagningu blótsins hingað til hefur í raun bara þróast með árunum í þann hóp sem lætur af störfum. 

Valin var tólf manna hópur og á hver hópur svo að velja arftaka sinn. Gert er ráð fyrir að ný nefnd verði valin á eins til tveggja ára fresti. Enn á eftir að komast regla á það. 

Sigurjón Egilsson forstöðumaður íþróttamannvirkja í Neskaupstað er einn þeirra sem valinn var í nefndina.

„Þetta er bara ofboðslega spennandi og skemmtilegt. Það verður auðvitað mjög erfitt að taka við keflinu af hópnum sem var að hætta enda búin að gera ótrúlega góða hluti öll þessi ár.“ 

Nýja „nefndin“ hefur því tekið við keflinu og mun sjá um skipulagningu Kommablóts næsta árs eða 2021.  Gamli hópurinn verður þó til ráðgjafar. 

Sigurjón segist ekki hafa fengið mikinn tíma til að hugsa sig um þegar honum var boðið að vera í nefndinni. 

„Reynsluboltinn Smári Geirsson hringdi í mig síðastliðinn mánudag og bar þetta undir mig. Ég sagði að ég myndi ekki skorast undan og Smári sagði að það væri hvort sem er ekki í boði,“ segir Sigurjón og hlær 

„Svo er Verna Sigurðardóttir, konan mín í nefndinni líka en ég gleymdi að segja henni frá því. Hún fékk ekki að vita það fyrr en seint á miðvikudagskvöld.“

Hann segist ekki hafa vitað hverjir aðrir skipuðu hópinn fyrr en á blótinu sjálfu. 

„Við Verna vorum köllum fyrst upp á svið þegar nýja „nefndin“ var kynnt og við vorum mjög spennt að sjá hverjir yrðu með okkur. Þetta er ekkert smá flottur hópur. Við erum semsagt tólf allt í allt. Fimm pör og tveir einstaklingar.“ 

Hin sem mynda nefndina eru Þorsteinn Ágústsson , Hrafnhildur Lóa Guðmundsdóttir, Guðbjartur Hjálmarsson og Anna Karla Björnsdóttir, Höskuldur Björgúlfsson, Guðbjörg Jónsdóttir, Perla Kolka Leifsdóttir og Hlöðver Hlöðversson og svo Eysteinn Gunnarsson og Karen Ragnarsdóttir.

Að sögn Sigurjóns er hópurinn ekki byrjaður að skipuleggja. „Þetta er allt svo nýtt. Við erum aðeins búin að spjalla lítillega en erum að fara hitta gamla hópinn í vikunni og fara yfir málin. Það verður gott að fá punkta frá reynsluboltunum.“ 

En þeir Smári Geirsson, Guðmundur Rafnkell Gíslason og Jón Björn Hákonarson hafa verið kjarninn í höfundateyminu og hafa Svanhvít Aradóttir og Heiðrún Helga Snæbjörnsdóttir og Páll Björgvin Guðmundsson staðið með þeim á sviðinu. Þessi hópur hefur séð um skipulagningu og skemmt á blótinu samfellt frá árinu 2002.

Eitt er víst að þetta er verðugt verkefni fyrir nýju nefndina en þó örugglega skemmtilegt. 

 

 

Nýja „nefndin“ saman á sviðinu í fyrsta sinn. Á myndina vantar þau Perlu Kolku Leifsdóttur og Hlöðver HlöðverssonMynd: Hlynur Sveinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.