Orkumálinn 2024

„Persónulega þjónustan er það sem fólk vill“

Sparisjóður Austurlands, sem hét áður Sparisjóður Norðfjarðar, verður 100 ára í ár. Sjóðurinn var stofnaður 2. maí árið 1920 og hóf starfsemi 1. september það ár. Sparisjóðurinn er einn af fjórum á landinu og sá eini á Austurlandi. Viðskiptavinir hans koma allstaðar af landinu. 


Flestir urðu sjóðirnir rúmlega 60 talsins um 1960. Það hafa verið stofnaðir alls tíu sparisjóðir á Austurlandi og er Sparisjóður Austurlands sá þeirra sem á sér langlengsta sögu. Hinir sjóðirnir hafa ýmist verið lagðir niður eða yfirteknir af bönkum. 

„Við erum með traustan og góðan kúnna hóp og við finnum það fólk saknar sparisjóðanna. Við höfum til dæmis kúnna allstaðar af landinu, fólk sem vill halda halda viðskiptum sínum við sjóðinn,“ segir Magnús Jóhannsson skrifstofustjóri Sparisjóðs Austurlands.

Sparisjóður Norðfjarðar verður Sparisjóður Austurlands

Í upphafi var starfssvæði sjóðsins aðeins Neskaupstaður og Norðfjörður. Undir lok síðustu aldar hóf sjóðurinn að skilgreina allt Austurland sem starfssvæði sitt og starfrækti meðal annars afgreiðslu á Reyðarfirði á árunum 1998-2012. 

Árið 2015 var félagsformi sjóðsins breytt í hlutafélag og nafni hans jafnframt breytt úr Sparisjóður Norðfjarðar í Sparisjóður Austurlands. Tilgangur breytinganna var að efla sjóðinn og leggja áherslu á að starfssvæði hans væri Austurland allt.

Persónuleg þjónusta 

Magnús segir að í allri þessari nútímavæðingu sem í gangi er finnist fólki enn gott að eiga frekar í persónulegum samskipum við starfsfólk Sparisjóðsins. 

„Við höfum fengið ábendingar og stundum kvartanir yfir því að vera ekki kominn með sparisjóðsapp eða slíkt í símann en staðreyndin er bara sú að flestir okkar kúnnar vilja geta talað beint við okkur. Þeir vilja þessi persónulegu samskipti. Þetta laðar að kúnna til okkar frekar en hitt,“ segir Magnús.

 

Mikið í boði á afmælisárinu

Sparisjóðurin mun minnast 100 ára afmælisins með ýmsum hætti á árinu. Magnús segir að margt verði í boði á árinu.  „Smári Geirsson hefur ritað þætti um sögu sjóðsins og þeir verða birtir á heimasíðu og fésbókarsíðu hans ásamt athyglisverðum ljósmyndum. Við gerum ráð fyrir að tveir til þrír þættir munu birtast í hverjum mánuði afmælisársins.“

Svo verður sett upp sýning í suðausturhluta afgreiðslu Sparisjóðsins þar sem sjá má dæmigerða skrifstofu og skrifstofubúnað frá þeim árum þegar Sparisjóðurinn var að festa rætur. Sýningin hefur nú þegar verið opnuð. Unnur Sveinsdóttir hafði umsjón með uppsetningu sýningarinnar.

„Til gamans þá erum við með færslubækur úr bókhaldi sjóðsins frá upphafi. Elsta bókin er til dæmis frá 1895. Hún tengist verslun Konráðs Sveinssonar í Mjóafirði,“ segir Magnús og hvetur fólk til að koma og skoða. 

Um páskaleytið verður boðið upp á kvikmyndasýningu fyrir börn og minnir Magnús  á að öll börn á starfssvæði sjóðsins séu velkomin á sýninguna. Laugardaginn 2. maí næstkomandi verður svo aðalfundur Sparisjóðsins haldinn og verður hann með sérstökum hátíðarbrag. Þennan dag verða einmitt liðin nákvæmlega 100 ár frá stofnun sjóðsins. Að loknum hátíðarfundinum verður samfélagsstyrkjum úthlutað.

„Við erum mjög stolt af því að geta veitt þessa styrki. Það segir líka til um stöðu sjóðsins. Við verðum að skila inn 5 % af hagnaði hvers árs inn í styrktarsjóð og við höfum getað veitt styrki í samfélagið. Úthlutaðir styrkir síðustu sjö árin eru á þriðja tug milljóna. Það væri ekki hægt nema góðum rekstri og sérstaklega traustum kúnnum.“ 

Að kvöldi 2. maí verður svo efnt til hátíðartónleika í Egilsbúð. Á tónleikunum munu meðal annars koma fram „landsþekktir heimamenn.“ Allir íbúar á starfssvæði sjóðsins eru velkomnir á tónleikana.

Að lokum verður opið hús þriðjudaginn 1. september. Öllum verður boðið í heimsókn í Sparisjóðinn en þann dag verða liðin 100 ár frá því að hann tók til starfa. „Svo má ekki gleyma því að í tilefni afmælisins hefur listamaðurinn Hafsteinn Hafsteinsson hannað afmælismerki Sparisjóðsins. Merkið á að minna á fyrsta merki Sparisjóðsins,“ segir Magnús. 

 

Afmælismerki Sparisjóðsins. Hannað Hafsteini Hafsteinssyni. 

 

Frá sýningunni sem er í suðurhluta afgreiðslu Sparisjóðsins. Mynd: Aðsend. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.