Spila jólalög sem öðrum þykja skemmtileg

Söngkonan Halldóra Malin Pétursdóttir og gítarleikarinn Jón Hilmar Kárason leiða saman hesta sína á jólatónleikum í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á sunnudagskvöld. Dúkkulísurnar eru einnig á ferð um Austurland um helgina með jólatónleika.

„Upphaflega áttu þetta ekki að vera jólatónleikar. Við ætluðum að halda tónleika í haust en svo frestuðust þeir og frestuðust – og svo var kominn 15. desember og þá verðum við að syngja jólalög – nema fólk sé búið að fá nóg af þeim, þá getum við sleppt þeim,“ segir Halldóra Malin.

Hún segir að á efnisskránni verði létt og falleg lög sem allir þekki, bæði jólalög og hefðbundin jólalög. „Þetta verða lágstemmdir tónleikar fyrir fólk sem langar að slaka á, hlusta á tónlist og fara svo heim. Þetta eru alls engir dívu tónleikar.“

Aðspurð segist Halldóra Malin ekki vera sérstök jólalagamanneskja. „Ég vildi bara syngja sorglega og blúsuð jólalög þannig ég þurfti að hringja í vini og spyrja fólk á förnum vegi til að komast að því hvaða jólalög væru góð. Út frá því bjuggum við til efnisskrána. Þetta verða því jólalög sem öðrum finnast skemmtilegt.“

Dúkkulísurnar ásamt Stebba Jak og Magna ferðast um Austfirði með jólatónleika um helgina. Þær verða í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði í kvöld en þær hituðu upp í dag með að taka lagið fyrir íbúa og starfsfólk hjúkrunarheimilisins Hulduhlíðar.

Hópurinn kemur síðan fram á Hótel Öldunni á Seyðisfirði á morgun og Tehúsinu á Egilsstöðum annað kvöld.

Þá verður smákökuganga Ferðafélags Fljótsdalshéraðs gengin á sunnudagsmorgun. Hist verður við húsnæði Ferðafélagsins á Egilsstöðum og ákveðið hvert skuli halda.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.