Þurfti að standa á kassa til að ná upp á roðflettivélina

Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís og prófessor við Háskóla Íslands, hefur á starfsævi sinni komið að verkefnum sem aukið hafa verðmæti íslenskra sjávarafurða um milljarða króna. Sigurjón var ekki hár í loftinu þegar hann byrjaði að vinna í fiski hjá Kaupfélaginu Fram í Neskaupstað.

Rætt er við Sigurjón í sjómannadagsblaði Fiskifrétta en Sigurjón varð sjötugur fyrir rúmum mánuði síðan. Hann er fæddur í Neskaupstað, elsta barn Ara Sigurjónssonar skipstjóra og Stefaníu Jónsdóttur netagerðarkonu. Til gamans má þess geta að faðir hans er í viðtali í sjómannadagsblaði Austurgluggans.

Í Fiskifréttum er komið inn á að Sigurjón hafi leitt fjölda rannsókna sem aukið hafi verðmæti íslenskra sjávarafurða um milljarða króna. Má þar nefna nýjar verkunaraðferðir á saltfiski, aukið geymsluþol og bættar pakkningar.

Að loknu háskólanámi réðist Sigurjón til Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins. Þar byrjaði hann á að rannsaka kolmunna og hráefni sem flokkaðist sem fiskúrgangur og lítið fékkst fyrir. Í þá daga voru hausar þurrkaðir utandyra en Sigurjón hafði í námi sínu í Danmörku kynnst þurrkklefum og fannst kjörið að nýta jarðvarmann hérlendis. Úr varð að byrjað var á slíkum tilraunum.

Sigurjón var aðeins tíu ára gamall þegar hann byrjaði að starfa við sjávarútveg, þá við roðflettivél í frystihúsi kaupsfélagsins í Neskaupstað. Í viðtalinu í Fiskifréttum segir hann frá því að hann hafi staðið uppi á kassa til að ná upp á vélina.

Tólf ára gamall leysti hann af fisksala bæjarins í mánuð og seldi þá meðal annars áhöfnum erlendra síldveiðiskipa, sem komu til Norðfjarðar til að taka vistir. Hann var síðar með föður sínum á humarveiðum úti fyrir Hornafirði, en Ari er talinn frumkvöðull í humarveiðum Íslendinga.

Máfaskíturinn lak ofan í fiskinn

Meðfram háskólanámi vann Sigurjón meðal annars hjá Fiskmati ríkisins. Þar var hann sendur til að taka út hreinlæti í öllum frystihúsum landsins en það þurfti að bæta til að Íslendingar héldu mörkuðum erlendis. Aðstæðurnar sem hann lýsir eru sem betur fer úr sögunni.

„Þarna hófst stóra byltingin í frystihúsunum. Mér var ekkert sérstaklega vel tekið. Ég var ungur maður. Menn vildu vita hvað ég vildi upp á dekk. Mér var sagt að ég hefði aldrei migið í saltan sjó. Ég svaraði bara fullum hálsi.

Þegar ég horfi til baka til þessa tíma var það mikil reynsla að fara í gegnum frystihúsin. Við urðum að loka mörgum þeirra. Ég man að í einu húsanna sáum við rottur inni á gólfi að gæða sér á fiski. Máfaskítur lak úr loftinu inn í afurðirnar og mygla var útbreidd í mörgum húsanna. Við notuðum innsiglin ansi grimmt þessi sumrin.“

Samspilið við háskólana lykilatriði

Sigurjón hyggst minnka við sig í vinnu en ekki hætta alfarið enda verkefnin óþrjótandi í hans huga. Hann ítrekar að áfram sé mikil þörf á fé til nýsköpunar og rannsókna í sjávarútvegi.

„Samspil sjávarútvegsins og háskólasamfélagsins hefur verið algjör umbylting fyrir greinina. Þetta þekkist ekki í sama mæli hjá öðrum þjóðum.

Erna Solberg, núverandi forætisráðherra Noregs, kom hingað þegar hún var sjávarútvegsráðherra og kynntist fyrirkomulagi okkar af eigin raun. Heim komin sendi hún atvinnu´malanefnd norska stórþingsins hið snarasta til Íslands og heimsótti meðal annars Matís til að fræðast nánar um fyrirkomulagið.

Norðmenn eru fljótir að tileinka sér þekkingu og eru nú á fleygiferð í allri framþróun og nýsköpun. Þeir leggja auk þess margfalt hærri upphæðir til slíkra uppbyggingar en nokkru sinni er gert hér á landi."

Mynd: Matís


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.