Tók innan við 30 mínútur að safna fyrir súrefnisvélunum

Á facebook síðunni Fjarðabyggð - Auglýsingar og viðburðir birtist ákall frá hjúkrunarheimilum Fjarðabyggðar í gærkvöldi. Fjárhagslegur róður hjúkrunarheimilanna þyngist verulega dag frá degi og því var ákveðið að leita til samfélagsins eftir stuðningi. Meðal annars við kaup á sex öndunarvélum. Viðbrögðin létu ekki á sér standa.

 

„Við erum klökk yfir öllum stuðningnum sem við fengum í kjölfar þess að við sendum út ákallið til fyrirtækja og félagasamtaka. Það tók okkur innan við 30 mínútur að safna við súrefnisvélunum,“ segir Ragnar Sigurðsson framkvæmdastjóri Hjúkrunarheimila Fjarðabyggðar.

Fyrirtækin Fiskeldi Austfjarða, Tandraberg, Tandrabretti og Laxar fiskeldi svöruðu kallinu fyrst og fjármögnuðu kaupin með rausnarlegu framlagi til heimilanna.

„Síðan þá hafa fjölmörg fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar haft samband og sent okkur skilaboð um vilja til þess að leggja okkur lið. Við áttum alls ekki von á svo skjótum viðbrögðum og verulega ánægjulegt að finna fyrir samtakamætti samfélagsins við aðstæður sem þessar.“

Ragnar segir að þótt þeim hafi tekist að fjármagna súrefnisvélarnar þá er margt annað sem við getum notað styrkfé í við þessar aðstæður svo að heimilin séu sem allra best undirbúin undir útbreiðslu veirunnar á Austurlandi.

„Við vonum að það komi ekki til þess. Þá er einnig rík ástæða til þess að leita leiða til að auka afþreyingu íbúa ennfrekar með kaupum á tækja- og líkamsræktarbúnaði.“

Hjúkrunarheimilin starfa í dag eftir viðbragðsáætlun almannavarna. Ragnar segir undirbúningur hafi gengið vel en það felur í sér gerð viðbragðsáætlana og áhættumats vegna Covid-19 veirunnar.

„Þetta eru umfangsmiklar aðgerðir og undirbúningur. Öllu verklagi hefur verið breytt sem felur í sér mikið álag á deildunum. Þá hefur heimsóknarbannið heilmikið áhrif á íbúa, aðstandendur, starfsfólk og allt félagsstarf en allir hafa sýnt aðgerðum okkar mikinn skilning,“ útskýrir hann.

Flestar aðgerðir stjórnenda hjúkrunarheimilanna hafa tekið mið af því að hindra að veiran berist inn á heimilin en einnig hafa þau undirbúið viðbragðsáætlanir gagnvart gruni um smit á heimilinu og staðfestu smiti á heimilunum.

„Starfsfólkið okkar hefur einnig sýnt mikla ábyrgð og yfirvegun við núverandi aðstæður og fjölmargir hafa þurft að breyta sínum plönum á undanförnum vikum og hafa verið meira og minna í sjálfskipaðri sóttkví frá því að heimsóknarbannið tók gildi.

Við munum hafa samband við alla sem hafa leitað til okkar að undanförnu með þakklæti í huga,“ segir Ragnar að lokum.

Þeir sem vilja styrkja hjúkrunarheimilin er bent á:
Minningarsjóð Uppsala, Kt: 681108-1060, Bankareikningur: 0171-15-380020.
Minningarsjóð Hulduhlíðar, kt: 660691-2199, Bankareikningur: 569-14-408005

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.