„Valdi marga áfanga því mig langaði að taka þá“

Jófríður Úlfarsdóttir var með hæstu meðaleinkunn útskriftarnema frá Menntaskólanum á Egilsstöðum í vorútskrift skólans. Jófríður var ekki bara með hæstu meðaleinkunnina heldur útskrifaðist hún af tveimur námsbrautum.

„Ég útskrifaðist af félagsgreina- og málabraut. Ég byrjaði á málabraut en bætti félagsgreinabrautinni við því mig langaði til þess,“ segir Jófríður sem var með meðaleinkunnina 9,81.

„Þetta var mikil vinna og erfitt á tímabili. Oft var mikið að gera í skólanum auk þess sem ég var virk í félagslífinu. Það var helst núna síðustu önnina þar sem var mikið að gera í leikfélaginu auk þess sem við vorum líka að gefa út skólablað,“ segir Jófríður sem sat í nemendaráði sem ritstýra og stjórn leikfélagsins. Slík félagsstörf gefa einingar í ME. „Mig langaði að nýta menntaskóla árin til hins ýtrasta,“ bætir hún við.

Náminu lauk hún á þremur árum. „Ég tók alltaf frekar mikið af áföngum því mig langaði til að taka þá þótt ég þyrfti þess ekki. Ég var líka búin að taka áfanga í ensku og dönsku áður en ég kom í skólann.

Ég fór oft frekar seint að sofa. Í ME eru þó verkefnatímar og ég nýtti þá alla til að læra til að geta líka gert eitthvað annað. Einhvern vegin virkaði það.“

Aðspurð segir Jófríður að henni hafi alltaf gengið frekar vel í námi en til að fá einkunn sem þessa þarf líka metnað og vinnu. „Ég hef alltaf verið frekar metnaðargjörn og mig langar að standa mig vel fyrir háskóla eða annað nám. Mamma er líka kennari í skólanum, ég er ekki að segja að hún hafi sett pressu á mig en maður vill standa sig vel.“

Stjörnur sögunnar

Allir útskriftarnemar úr framhaldsskólunum gera útskriftarverkefni. Fyrir valinu hjá Jófríði var að gera hlaðvarpsþætti um stjörnur úr Hollywood. „Ég hef alltaf haft áhuga á sögu og finnst kvikmyndasagan áhugaverð. Ég gerði þrjá þætti, um þetta gullaldartímabil á sjötta áratugnum, sem voru um James Dean, Elizabeth Taylor og Grace Kelly og kalla þá Stjörnur sögunnar.

Í þáttunum tala ég um ævi þeirra og hvað gerði þau merkileg. Það hafa allir heyrt um James Dean en mig langaði að rannsaka og segja frá hvað hefði gert hann svona frægan.“

Jófríður segist ekki vera búin að ákveða hvað taki við að loknu stúdentsprófinu. „Ég tek mér örugglega ár í frí en veit ekkert hvað ég ætla að gera. Trúlega fer ég að vinna, kannski til Danmerkur í lýðháskóla. Síðan fer ég örugglega í háskólanám. Ég hallast að hugvísindum, sagnfræði eða slíku.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.