Yfirheyrslan: Jónas Reynir gefur út sína þriðju ljóðabók.

Fellbæingurinn Jónas Reynir Gunnarsson var að gefa út ljóðabókina Þvottadagur. Hún er lokakaflinn í þríleik ljóðabóka sem komu út árið 2017. Hina tvær eru Leiðarvísir um Þorp og Stór Olíuskip. Jónas er í yfirheyrslu vikunnar.

 

Jónas segir það vera alltaf erfitt að svara því um hvað bók er. „Ekki síst í tilfelli ljóðabóka, þó að maður sé að velta því fyrir sér allan tímann sem maður er að skrifa hana,“ segir Jónas og  grípur niður í kynningartextann. 

Þar segir: 

„Bókin lýsir ferðalagi milli þorps og borgar, drauma og veruleika, bernskuminninga og ástarsambanda, og meðal viðfangsefna má nefna dekkjaverkstæði, sorphirðu Reykjavíkurborgar og Michael Jordan. Ferðast er um innri og ytri veruleika í átt að áfangastað og umhverfið dregið upp með sterkum myndum.“

Hann segist hafa uppgötvað að þetta væri þríleikur eftir að hann kláraði þessa bók. Honum fannst hún vera ákveðin niðurstaða þess ferðalags, innra og ytra, sem á sér stað í hinum bókunum. 

„Ég er ánægður með bókina og leið eins og ég hefði tekið vaxtarkipp við að skrifa hana. Mér finnst Þvottadagur eiginlega vera hjónaband á milli Leiðarvísis um þorp og Stórra olíuskipa. 

Heildarrammi Leiðarvísisins fannst mér aðgengilegri en í Olíuskipunum, þar sem heildin fólst í óræðari atriðum, draum- og brotakenndari ljóðmyndum. Þvottadagur sameinar á einhvern hátt þessar tvær bækur,“ útskýrir Jónas Reynir.

Hann hefur verið mjög afkastamikill undanfarin ár. En hann hefur sent frá sér fimm bækur á þremur árum. Þegar hann er spurður hvort eitthvað sé á leiðinni þá segist hann yfirleitt vera vinna nokkrum verkefnum í einu. Sem eru mislangt á veg komin. 

„Nú er ég að vinna að skáldsögu sem ég hef verið að mjaka áfram undanfarin ár. Hún er mín fyrsta þar sem sögusviðið er ekki í borg. Meðfram henni er ég líka að vinna í smásögum. 

Til dæmis með þennan þríleik þá var ég byrjaður á seinni ljóðabókinni þegar ég var að klára þá fyrstu, og sömuleiðis var Þvottadagur kominn af stað þegar ég var að ganga frá Stórum olíuskipum,“ segir Jónas að lokum. 

 

Yfirheyrslan

Fullt nafn: Jónas Reynir Gunnarsson.

Aldur: 32.

Starf: Rithöfundur.

Maki: Elín Inga Bragadóttir.

Börn: Engin.

Áhugamál? Myndlist og eldamennska.

Mesti áhrifavaldur í listaheiminum? Sem hafði áhrif á mig? Þeir eru ótalmargir. Í dag ætla ég að segja Andrei Tarkovsky.

Þú ert með matarboð, hvaða þrjá úr mannkynssögunni myndir þú bjóða og af hverju? Svo margir möguleikar. Kannski væri hægt að setja Búdda í herbergi með Trump og Pútín og sjá hvað gerist. Eða sameina aftur Destiny‘s Child og selja aðgöngumiða. 

Ef þú mættir taka eina bók sem einhver annar hefur skrifað og endurskrifa hana, hvaða bók yrði það og af hverju? Ég held ég myndi bara sleppa því, jafnvel þó að það væri bók sem færi í taugarnar á mér og ég teldi mig geta bætt, því bækur og listaverk eru framlenging af fólkinu sem býr það til og ég myndi ekki vilja þvælast fyrir tjáningunni. En kannski myndi ég endurskrifa Sjálfstætt fólk og láta hana enda svona: „Þetta hefur verið skáldsagan Sjálfstætt fólk eftir mig, Halldór Laxness! Takk kærlega fyrir lesturinn. Mig lángar að þakka útgefandanum mínum og öllum yfirlesurunum, það var algjört ævintýri að skrifa þessa bók og ég get ekki beðið eftir að skrifa næstu. Frábært að fylgjast með viðtökunum og það er ykkur að þakka að maður getur unnið við þetta. En jæja, nóg af gaspri, ég sé ykkur í næstu bók. Fylgist með bókaauglýsíngum fyrir jólin! Bestu kveðjur, Halldór Laxness, rithöfundur.“

Hlustarðu á tónlist þegar þú skrifar? Ef svo er hvaða og afhverju? Það er allur gangur á því. Stundum finnst mér þægilegt að hlusta á tónlist þegar ég skrifa og stundum óþægilegt. Kannski fer það eftir einbeitingunni sem skrifin krefjast hvort ég sé að frumskrifa texta eða umrita, leita lausna eða nýrra hugmynda eða þá að slípa setningar fyrir lokaskil. Stundum finnst mér gott að sitja í algjörri þögn og hafa skarpan fókus á því sem ég er að gera en á öðrum stundum er fínt að dreifa huganum. Þegar ég hlusta á tónlist er það klassísk tónlist og stundum raf- eða kvikmyndatónlist, sem er ekki með neinn söng, en svo líka bara eitthvað indie-rock sem ég er vanur að hlusta á þegar ég er ekki að skrifa. Yfirleitt er ég þó í þögn, eða í klið á kaffihúsi. 

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Ekkjuvatn.

Hver er þinn helsti kostur? Ég ætla að svara þessari spurningu og þeirri næstu út frá sjálfum mér, það er að segja hvað það er í mínu fari sem ég sjálfur græði mest á, því ég treysti mér ekki til að dæma um afleiðingar góðra og slæmra eiginleika minna fyrir aðra. Ég held ég búi yfir ágætri langtíma-þolinmæði sem kemur sér vel þegar klára þarf verkefni sem taka langan tíma, eins og bók. Mér leiðist ekki að sinna sama verkefninu lengi. 

Hver er þinn helsti ókostur? Mér finnst erfitt að sinna skyldum fullorðinnar manneskju – kaupa í matinn, setja í vél, halda heimili gangandi. Það þarf lítið til þess að mér finnist vera alltof mikið að gera, og þó er ég barnlaus og ber eiginlega bara ábyrgð á sjálfum mér. Þegar ég lýk vinnudegi, hætti að skrifa og fer heim, þá finnst mér vinnudagurinn í raun vera að byrja. Þetta er það sem er í daglegu tali kallað „leti“ og er sá galli sem mér finnst helst koma niður á mér. Ef fólkið í kringum mig væri spurt væri örugglega hægt að finna eitthvað betra og meira krassandi. 

Hver er alltaf til í ísskápnum hjá þér og af hverju? Chipotle í adobo-sósu. Chipotle-piprar er reykta útgáfan af jalapeno. Þeir eru temmilega sterkir og gott hráefni til að eiga því þeir dýpka og bragðbæta ótal rétti. Það er hægt að nota þá í næstum allt, sósur, súpur, kássur, karrírétti, pottrétti, marineringu, hummus, ídýfur o.s.frv. Þeir fást í dós og eru í þykkri sósu. Ég fékk alltaf vin minn í New York til að senda mér nokkrar dósir, því þetta fékkst ekki á Íslandi, en nú er hægt að kaupa þetta í Melabúðinni, þannig að núna tími ég frekar að ganga á birgðirnar. 

Ertu nammigrís? Hérna … fallegt veður finnst mér, hérna úti. Þetta er mjög hérna, þakka ykkur fyrir bara, ég ætla að fá mér kaffisopa hérna. 

Kaffi eða te? Kaffi. En ég er farinn að kunna meta tedrykkju á kvöldin. 

Hvað er leiðinlegasta húsverkið og af hverju? Húsverk eru miklu verri þegar maður hugsar um þau heldur en þegar maður sinnir þeim, finnst mér. Mér finnst skemmtilegra að ryksuga heldur en að skúra, sérstaklega með kraftmikilli ryksugu. 

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Vakna um 7-8, fæ mér hafragraut, tek strætó á skrifstofuna, skrifa, drekk kaffi, sinni tölvupóstsamskiptum og álíka brasi, labba svo kannski heim og kem við á kaffihúsi eða bókasafni, elda og borða kvöldmat, dunda mér við að skrifa (það róar mig að skrifa á kvöldin, mér finnst minni pressa vera á mér eftir að ég sendi tölvupóstana og græja matinn), les svo kannski smá eða horfi á mynd og fer að sofa.

Hver er þín helsta fyrirmynd?  Maður á sér svo margar fyrirmyndir á mismunandi sviðum lífsins. Ég lít upp til fjölskyldu minnar og vina, ég er umkringdur fólki sem ég reyni að læra af umhyggju, seiglu, vinnusemi, jákvæðni, heiðarleika o.fl.  

Mesta afrek? Kannski læra að hjóla. 

Duldir hæfileikar? Þeir eru duldir fyrir mér, ef ég er með einhverja.

Um hvað hugsar þú þegar þú ert einn í bíl að keyra? Ég hugsa um umhverfið og hvað það sé slæm nýting á bíl og eldsneyti að ég sé eini farþeginn.

Hvað var síðasta gjöf sem þú gafst einhverjum? Ég gaf dóttur vinar míns teikningu af kanínu. 

Besta bók sem þú hefur lesið? Höllin eftir Kafka. 

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Húmor, tillitssemi og heiðarleika kannski.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Ekkert sérstakt held ég. Mig langar helst að fara í göngutúr og sund og eitthvað svoleiðis. 

 

 

Jónas Reynir Gunnarsson. Myndin er aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.