Skip to main content
Austurglugginn - 1

18. maí 2015

Glettingur í 25 ár: Tryggð áskrifenda grundvöllur útgáfunnar

IMG 0912 Nýjasta tölublað Glettings, tímarits um austfirsk málefni, markar 25. árgang þess. Ritið hefur komið út 2-3 á ári sleitulaust frá árinu 1991. Ýmissa grasa kennir í nýjasta tölublaðinu eins og oft áður. „Blaðið byrjaði að koma út árið 1991 og Prentverk Austurlands, sem starfaði í Fellabæ, gaf það út í upphafi. Það fyrirtæki stofnaði Ásgeir Már Valdimarsson og Prentverk gaf blaðið út fyrstu þrjú árin. Í fyrstu ritstjórn Glettings voru Helgi Hallgrímsson, Finnur Karlsson og Sigurjón Bjarnason,“ segir Magnús Stefánsson, formaður útgáfufélagsins sem ritstýrir nýjasta heftinu.

„Árið 1994 var stofnað sérstakt útgáfufélag Glettings, eftir að fór að halla undan fæti hjá Prentverkinu. Útgáfufélagið hefur haldið velli alveg síðan þá. Fyrstu árin var Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur á Egilsstöðum, formaður félagsins, en núna er ég formaður þess. Aðrir stjórnarmenn eru Sigurjón Bjarnason, gjaldkeri, sem hefur verið í stjórn félagsins alla tíð. Ritari félagsins er Rannveig Þórhallsdóttir á Seyðisfirði.”

Ljóst er að mikið afrek er að halda blaðinu, sem eingöngu er borið uppi af áskriftargjöldum og stuðningi fyrirtækja á svæðinu, gangandi í svo langan tíma. Hvaða þættir hafa gert það mögulegt?

„Fyrst og fremst er það tryggð áskrifenda. Áskrifendur blaðsins eru gríðarlega tryggir og efnistök blaðsins virðast falla þeim vel í geð. Efni blaðsins fjallar fyrst og fremst um þrjá meginþætti, náttúruna, minjar og sögu auk umfjöllunar um bókmenntir og listir. Við eigum áskrifendur um allt land og ekki síst í hópi brottfluttra Austfirðinga, sem halda tryggð við blaðið þrátt fyrir að vera fluttir úr fjórðungnum.

Einnig má þakka þrautseigju þeirra sem hafa staðið að útgáfunni í öll þessi ár. Þar ber helst að nefna þá Helga Hallgrímsson og Sigurjón Bjarnason, sem hafa komið hvað lengst að útgáfu tímaritsins.”

Hvaða efni má finna í þessu nýútkomna tölublaði?

„Það er ítarlegt viðtal við Helga Hallgrímsson og hann prýðir einnig forsíðu tímaritsins, þar sem hann stendur við minnismerki Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnasafnara frá Eyvindará. Meðal annars efnis má nefna að Sigrún Klara Hannesdóttir skrifar sjöundu grein sína í flokknum „Konur í sögu Seyðisfjarðar“ og hún á eftir að birta að minnsta kosti eina grein í viðbót í þessum flokk, sem verður í næsta tölublaði. Það hefur verið mikill fengur fyrir Gletting að fá þessar greinar hennar og ég veit til þess að þær hafa verið mikið lesnar og notið vinsælda.

Svo er smásaga eftir Hrönn Jónsdóttur á Djúpavogi. Smásagan heitir Gestir, en Hrönn vakti athygli á síðasta ári fyrir skáldsögu sem hún gaf út. Þá skrifar Martin Gasser, jarðfræðingur við Breiðdalssetur, grein um eldstöðvakerfið í Bárðarbungu. Í síðasta blaði skrifaði hann um eldgosið í Holuhrauni.

Við erum einnig að byrja á flokki pistla um unga austfirska listamenn og í þessu blaði er umfjöllun um Erlu Dóru Vogler, óperusöngkonu. Þetta er annar pistillinn í þessum flokki. Í miðopnu blaðsins er síðan orðin venja að birta ljósmyndir. Þá er einn ljósmyndari, oftast áhugaljósmyndari, sem birtir þar myndir sínar. Að þessu sinni er það Skarphéðinn Þráinsson frá Egilsstöðum sem á myndirnar.”

Einnig má nefna athyglisverða grein Katrínar Þorvaldsdóttur, þjóðfræðings, um alþýðusagnakonuna Brandþrúði Benónísdóttur,  grein um fimleikadeild Hattar á Egilsstöðum eftir Rósey Kristjánsdóttur sem og gamla frásögn ungrar stúlku úr Breiðdalnum, sem var vinnukona í svokölluðu „fínu húsi“ í Eskifirði á árunum 1887-1888.

Hægt er að gerast áskrifandi að Glettingi með því að hafa samband við stjórnarmeðlimi útgáfufélagsins, eða einfaldlega á heimasíðu tímaritsins, www.glettingur.is.