Góðvinir íbúa á hjúkrunardeild HSA á Egilsstöðum heiðraðir
Kristín Albertsdóttir hélt stutta tölu fyrir hönd HSA þar sem þessum einstaklingum var þakkað innilega fyrir. Kristín sagði meðal annars að hjúkrunarþjónustan snerist oft um að „bæta árum við lífið“ og að því miður væri ekki alltaf tími né mannskapur til þess að sinna því sérstaklega að „færa líf í árin,“ sem væri þó ekki síður mikilvægt.
Það hlutverk hafa þessir fórnfúsu einstaklingar tekið að sér. Hvern einasta fimmtudag glæða þeir Kristmann, Broddi og Guðni kaffitímann lífi með söng og harmonikkuspili og Rannveig kemur og les fyrir heimilisfólk einu sinni í viku.
Fjóreykið var leyst út með gjöfum og blómum frá stofnuninni. Þegar Broddi Bjarnason veitti sinni viðurkenningu viðtöku sagði hann að honum þætti mjög fínt að fá þessi blóm, en þó væri sælla að gefa en að þiggja. Það má ætla að það eigi við um alla þessa fórnfúsu einstaklinga. Þegar viðurkenningarnar höfðu verið veittar tóku þremenningarnir við að syngja og spila. Fljótlega var beðið um óskalag, vals í hægum takti, og því næst var stiginn dans.
mynd: Kristmann Jónsson harmonikkuleikari tekur á móti viðurkenningu frá HSA fyrir framlag sitt