Norðfjarðargöng

Páll Björgvin: Allir Austfirðingar hafa lagt mikið á sig til að fá þessu göng

pall bjorgvin gudmundsson mai12Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir að víðtæk samstaða á Austurlandi öllu hafi orðið til þess að gera Norðfjarðargöng að veruleika. Fyrsta haftið fyrir nýjum göngum var sprengt í dag.

„Það hafa Austfirðingar allir og öll sveitarfélög á Austurlandi staðið þétt saman í þessu og lagt mikið á sig til að fá þessi göng," segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

„Mér finnst samstaða hafa einkennt baráttuna fyrir göngum. Hún náði ákveðnu hápunkti í fyrra þegar nánast hvert heimili í Fjarðabyggð skrifaði undir stuðningsyfirlýsingu. Össur Skarphéðinsson kom einmitt inn á það í ræðu sinni í dag að það hefði verið eftirminnilegt að vera í Neskaupstað þegar yfirlýsingin var afhent um það leiti sem ríkisstjórnin var að taka ákvörðun um göngin."

Fimm meginrök voru lögð fram í baráttunni. Að bæta öryggi vegfarenda, að sameinað sveitarfélag væri ekki rofið með 600 metra háum fjallgarði sem hindraði aðgengi að lykilstofnunum svo sem framhaldsskóla og sjúkrahúsi, að byggja upp sterkt þjónustusvæði, að sparaður væri gjaldeyrir með minni eldsneytiskostnaði og að vísbendingar væru um að umferðin myndi aukast verulega á næstu árum.

Í ræðu sinni í Valhöll á Eskifirði í dag kom Páll Björgvin inn á hvernig margir hefðu lagt hönd á plóg í um þrjátíu ára baráttu fyrir nýjum göngum.

„Þetta er ekki einni ríkisstjórn, bæjarstjórn eða setti af þingmönnum að þakka heldur eiga allir heiður skilinn fyrir að hafa komið þessum göngum í gegn."

Hann segir gleði ríkja í Fjarðabyggð í dag. „Ég held að flestum finnist ótrúlegt að þessi framkvæmd sé formlega hafin. Fólk er fullt tilhlökkunar að geta farið að komast hér á milli staða og að þetta sé að verða eitt sameinað og flott atvinnu- og þjónustusvæði. Nú þurfum við bara að halda áfram og snúa okkur að því að koma göngum á Seyðisfjörð."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.