Norðfjarðargöng: Byrjað að víkka göngin fyrir útskot
Vinna hófst aftur við Norðfjarðargöng í byrjun síðustu viku eftir jólafrí. Byrjað er að víkka göngin fyrir útskot en það var fært utar í göngin vegna jarðlaga.Í lok vikunnar var búið að grafa 355 metra inn í fjallið Eskifjarðarmegin, eða um 4,7%. Framvinda vikunnar var 46 metrar.
Byrjað er að víkka göngin fyrir útskot sem fært var utar vegna jarðfræðilegra aðstæðna, en útlit var fyrir að rautt millilag, sem er veikara, myndi ganga upp úr þakinu einmitt í miðju útskoti og þóttu það ekki ákjósanlegar aðstæður.
Bergið sem grafið er í núna er fjölbreytt, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum. Neðst í sniðinu er nú kargaberg og þar undir basalt. Ofan á kargann kemur rautt millilag, sem upphaflega hefur verið jarðvegur, en síðar bakast undir hrauni sem yfir það rennur.
Lagið er um 1 metra þykkt núna, en sveiflast dálítið til á þykktina. Þar ofaná kemur um 30-40 sentímetra þykkur sandsteinn og loks kemur basalt þar ofan á. Innskotsberg, svokallaðir laggangar, hafa troðist inn í basaltlagið og inn á milli laga.
Í Fannardal er aðstöðusköpun í fullum gangi, bæði vinnubúðir yst í dalnum og einnig skrifstofu- og vinnuaðstaða inn við fyrirhugaðan stafn. Enn er verið að moka lausum jarðlögum ofan af berginu og verður ekki hafist handa við sprengingar, fyrr en þeirri vinnu lýkur.
Myndir: Ófeigur Örn Ófeigsson/Hnit verkfræðistofa
Mynd 1: Laggangur hefur troðist á milli sandsteinslags og hraunlagsins ofaná. Snertifletir þessara laga eru oft veikburða og því þarf að gæta varúðar ef þeir fara upp úr þaki.
Mynd 2: Laggangur hefur troðist á milli sandsteinslags og hraunlagsins ofaná. Snertifletir þessara laga eru oft veikburða og því þarf að gæta varúðar ef þeir fara upp úr þaki. Lagskipting er einnig talsverð í rauða millilaginu og er varhugaverð.
Mynd 3: Rauða millilagið og sandsteinninn eru á milli tveggja basaltlaga. Í efra basaltlaginu má sjá dökkan laggang sem liðast í gegnum bergið, rétt neðan við þakið. Hugsanlega er það sami gangurinn og er á myndum 1 og 2, en hefur færst ofar eftir veikleikaflötum í berginu.
Mynd 4: 180° mynd af framkvæmdasvæðinu í Fannardal. Verið er að fjarlægja laus jarðlög, svo hefja megi vinnu við sprengingu klappar.