Norðfjarðargöng

Norðfjarðargöng: Hundraðasta sprengifæran sprengd í síðustu viku

feb03022014 1Gröftur Norðfjarðarganga er aftur kominn á fulla ferð eftir að komist var í gegnum rauða lagið, sem farið er hægar í gegnum, í síðustu viku. Illa hefur gengið að undirbúa framkvæmdirnar Norðfjarðarmegin vegna mikilla rigninga.

Í síðustu viku voru grafnir 62,5 metrar en alls hafa verið grafnir 489,4 metrar eða 6,5% af heildarlengd gangnanna.

Fyrri hluta vikunnar var unnið að því að klára snúningsútskot og botnlangann inn af því. Botnlanginn verður alls 30 m langur og þar verður hægt að snúa við á stórum ökutækjum.

Í sjálfri gangagerðinni gekk frekar hægt framan af, því rauða millilagið þokaðist rólega upp úr þakinu og því varð að styrkja vel eftir hverja sprengifæru. Áhersla er lögð á öryggi við framkvæmdina.

Undir lok vikunnar var komið basalt í allan stafninn og þrátt fyrir ummerki um lítilsháttar misgengishreyfingar var bergið þétt og gott og framvindan jókst þegar leið á.

Hundraðasta sprengifæran var sprengd á fimmtudag og samkvæmt spánni eru fyrirheit um góða jarðfræði til jarðgangagerðar framundan.

Í Fannardal var unnið að því að hreinsa jarðveg af klöppinni, svo unnt sé að hefja jarðgangagerð. Aðstæður eru mjög erfiðar, þar sem rignt hefur nær samfellt og jarðvegur mjög blautur.

Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður, hefur verktakinn náð að hreinsa efnið af berginu og er gert ráð fyrir að sprengingar við forskeringu hefjist í vikunni, ef aðstæður leyfa.

Mynd 1: Unnið hefur verið að gerð snúningsútskots síðustu vikur og er þeirri vinnu að mestu lokið. Útskotið verður um 30 m að lengd og mun nýtast sem vélageymsla á verktíma.

Mynd 2: Rauða millilagið hvarf upp úr þakinu snemma í vikunni. Undir því liggur kargi og vegna þess hve gljúpur hann er, hefur rauði liturinn smitast niður í hann. Undir karganum er basalt.

Mynd 3: Séð yfir framkvæmdasvæðið Eskifjarðarmegin.

Ljósmyndir: Ófeigur Örn Ófeigsson/Hnit verkfræðistofa

feb03022014 2feb03022014 3

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar