Norðfjarðargöng

Búið að grafa 10% af Norðfjarðargöngum

feb28022014 1Ný Norðfjarðargöng eru nú orðin 770 metra löng sem þýðir að búið er að grafa 10% af heildinni. Grafið hefur verið Eskifjarðarmegin frá en vonast er til að hægt verði að byrja að grafa Norðfjarðarmegin í næstu viku.

Tíu prósenta múrinn var rofinn í gærkvöldi en það er enn einn áfanginn í gagnagreftrinum sem hefur gengið nokkuð vel síðan hann hófst í nóvember.

Á mynd 1 sést að göngin eru í heillegu, þykku blágrýtislagi. Jaðarborholur sjást greinilega í þaki og veggjum á miðri mynd, sem sýnir hve bergið er gott jarðgangaberg í þessum hluta jarðganganna,

Stafn ganganna er til vinstri á myndinni, en veggur til hægri. Þarna hafa verið sprengdar þrjár umferðir, hver 5 metrar og má sjá það á hægri vegg á miðri myndinni. Með góðum vilja má sjá mörkin milli sprenginganna. Búið er að styrkja þakið með þriggja metra löngum bergboltum (eins og stórir múrboltar), sem sjást í þekjunni.

Næst er að sprauta 6 sentímetra þykkri sprautusteypu í loft ganganna og aðeins niður á veggina.

Í Fannardal hefur undirbúningur fyrir jarðgangagröft verið í fullum gangi. Í gær var hafin vinna við styrkingar á efri hluta bergsins við gangastafninn.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvar búið er að þvo bergið fyrir sprautusteypu. Op jarðganganna er svo að mestu leyti neðan við þann hluta bergsins sem sést á myndinni, þannig að eftir er að grafa meira frá stafninum og styrkja bergið þar.

Gert er ráð fyrir að sprengingar í jarðgöngum í Fannardal geti hafist í byrjun næstu viku að öllu óbreyttu.

Þá er einnig byrjað að reisa steypustöð fyrir jarðgangaverkið nálægt vinnubúðum verktaka við Kirkjuból.

Mynd í jarðgöngum: Birgir Jónsson/Hnit
Myndir úr Fannardal: Guðmundur Þ. Björnsson/Hnit

feb28022014 2feb28022014 3

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar