Norðfjarðargöng: 1000 metra markinu náð
Búið er að krafa ríflega einn kílómetra af fyrirhuguðum Norðfjarðargöngum. Illa gekk samt að grafa Eskifjarðarmegin frá í síðustu viku því bergið þar er laust í sér.Í síðustu viku voru grafnir 44,8 metrar Norðfjarðarmegin frá en aðeins 8,5 Eskifjarðarmegin. Ástæðan fyrir því hversu lítið var grafið Eskifjarðarmegin er að þykk setlög gengu upp úr gólfinu og eru talsvert laus í sér.
Þau eru þykkari þarna en ráð var fyrir gert og því þarf að styrkja mikið meira en reiknað var með. Það stefndi í að þau yrði í miðju næsta útskoti og því var brugðið á það ráð að færa útskotið. Því var að mestu unnið að breikkun ganganna á kafla sem þegar hafði verið grafinn, meðan viðeigandi styrkingar væru undirbúnar.
Þær eru meðal annars járnbentir sprautusteypubogar, bendinet og allþykk sprautusteypa. Vegna þess hve styrkingar eru umfangsmiklar, má búast við því að framvinda verði fremur lítil næstu daga, uns lagið er að baki.
Alls hafa verið grafnir 1017,3 metrar eða 13,5% af heildargangagreftrinum.
Meðfylgjandi mynd sýnir setið teygja sig upp undir þekjuna og er það mjög lagskipt. Efst er setið rauðleitt en verður grátt og grágrænt þegar neðar dregur. Mynd: Ófeigur Ö. Ófeigsson/Hnit