Norðfjarðargöng: Ár liðið frá fyrstu sprengingu
Í dag, 12. nóvember 2014, er liðið eitt ár frá fyrstu sprengingunni á stafni Norðfjarðarganga. Framan af var eingöngu grafið Eskifjarðarmegin og var búið að grafa tæpa 900 metra þeim megin, áður en byrjað var að sprengja í Fannardal.Fyrsta sprenging Norðfjarðarmegin var 6. mars. Þá var þykkt setbergslag að koma á stafninn í Eskifirði og hægði það verulega á framvindu í nær 2 mánuði, áður en framvindan jókst á ný.
Nýlega var svo aftur farið í gegnum svipað setbergslag. Það krafðist svipaðra styrkinga og hið fyrra, en það hvarf fyrr upp úr þekjunni og tafir urðu minni af völdum þess.
Á þessu ári sem liðið er frá fyrstu sprengingu hafa alls verið grafnir út um 4.190 metrar af göngunum, eða um 55%, um 2.410 m (35,5%) Eskifjarðarmegin og 1.780 m (23,5%) Norðfjarðarmegin. Alls eru þetta um 320 þúsund rúmmetrar af losuðu efni, eða tæplega 20.000 vörubílshlöss.
Í Fannardal hefur efnið m.a. nýst í vegagerð og er vegfylling komin út undir Kirkjuból í Norðfirði. Eskifjarðarmegin hefur mikið efni verið keyrt í landfyllingar meðfram Eskifjarðará og nú er unnið að landfyllingum austan Norðfjarðarvegar.