Norðfjarðargöng: Búið að grafa yfir sjö kílómetra
Nú er búið að grafa meira en 7 km leiðarinnar milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, rúma 3 km frá Norðfirði og rúma 4 km frá Eskifirði. Það eru því aðeins um 500 metrar eftir þar til slegið verður í gegn.Búist er við því að jarðfræðin verði fremur hagstæð á þeirri leið sem eftir er, þó reyndar geti komið eitt setlag á leiðinni.
Gegnumslag er áætlað á haustmánuðum, en enn er of snemmt að gera nákvæma spá þar um.
Vinna heldur áfram við vegskála í Fannardal. Verið er að steypa undirstöður undir skálana og slá upp mótum fyrir bogaveggi í fyrstu færu vegskálanna.
Áætlað er að vinnu við gerð vegskála í Fannardal ljúki í nóvember.
Mynd 1: Vegskálar í Fannardal. Verið er að slá upp fyrir fyrstu færu í vegskálum. Búið er að steypa undirstöður undir næstu færu og fleiri í undirbúningi.
Mynd 2: Undirstöður undir vegskála í undirbúningi.
Mynd 3: Bogamót fyrir vegskála.
Mynd 4: Eftirlitsmaður Hnits skoðar undirstöður undir vegskála.
Myndir: Hnit/Ófeigur Ö. Ófeigsson