Norðfjarðargöng

Efnið nýtist í vegagerð við Norðfjarðargöng

Verktakar hafa í dag unnið við að keyra í burtu efni sem grafið var upp úr Hlíðarendaá til að bjarga brúnni yfir ána í vatnavöxtum í gær.


Áætlað er að um 12-14 þúsund rúmmetrar af möl og framburði hafi verið grafnir upp úr ánni í gær. Hluti efnisins nýtist í vegagerð að Norðfjarðargöngum sem nú er í gangi.

Gröfur unnu í árfarveginum frá því um klukkan fjögur í gær fram til klukkan tvö í nótt. Áin hafði með framburði sínum stíflað farveginn undir brúnni. Vörubílar hafa nær allan tíman verið að keyra efni í burtu.

Tjónið á svæðinu verður metið á næstunni, skemmdir eru á veginum, einhverjar neðan í brúnni og mögulega á húsi neðan við sem var umflotið vatni. Tveimur íbúum hússins var ráðlagt að fara að heiman í gær sem þeir og gerðu.

Nokkrar litlar spýjur féllu niður lækjarfarvegi í fjöllunum ofan Eskifjarðar.

Skriða féll á veginn í Mjóafirði og lokaði honum. Vegagerðin opnaði hann á ný í dag. Austurfrétt hefur ekki spurnir af skriðuföllum víðar af Austfjörðum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar