Norðfjarðargöng

Ekkert hik á Norðfjarðargöngum á fjárlögum

Vegamálastjóri segir ekkert til í sögusögnum um að til standi að skera niður fjárveitingar til Norðfjarðarganga. Óvissa er hins vegar um ýmis verkefni í samgöngumálum þar sem milljarðamunur er á samgönguáætlun og fjárlögum.


Sá kvittur hefur verið á kreiki að í fjárlögum ársins 2017 vanti 1,4 milljarð króna í Norðfjarðargöng en framkvæmdum við þau lýkur á árinu. Vegamálastjóri segir ekkert hæft í þessum sögusögnum.

„Það eru nokkur dæmi í frumvarpinu þar sem erfitt er að lesa út úr því. Fyrst er sagt að upphæðin sé lækkuð en það er af því að talan er lægri á næsta ári en þessu. Aftar er svo talan skráð.

Það eru því engar breytingar á fjárveitingum til ganganna og ekkert sem kemur í veg fyrir að þeim verði lokið,“ segir Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri.

Seyðfirðingar hafa hins vegar áhyggjur af því að ekki er í frumvarpinu eyrnamerkt sérstakt fjármagn í rannsóknir vegna Fjarðarheiðarganga en gert var ráð fyrir 70 milljónum í samgönguáætlun. „Það er óklárt eins og allt annað varðandi fjárlagafrumvarpið,“ segir Hreinn.“

Í gærkvöldi bárust fréttir um að samkomulag hefði náðst um að hækka framlag til samgöngumála um fjóra milljarða króna. Samt vantar enn tíu milljarða upp á að fjárlögin jafnist á við það sem gert var ráð fyrir í samgönguáætlun.

„Þótt þessi viðbót fáist uppfyllir hún ekki væntingarnar sem búið var að skapa með samgönguáætlun. Þegar fjárlögin eru tilbúin þarf að setjast niður og ráðstafa því fjármagni sem varið verður til vegamála.

Við eigum eftir að sjá hvort einhverjar upphæðir séu eyrnamerktar í áliti fjárlaganefndar. Ef svo er ekki þarf innanríkisráðherra að forgangsraða miðað við samgönguáætlun.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.