Norðfjarðargöng: Byrjað að klæða veginn í Fannardal
Klæðning vegarins í Fannardal hófst í dag þegar klætt var frá vegamótum í Norðfirði inn að nýju brúnni yfir ána inni í dalnum. Aðeins verður sett einfalt lag af klæðningu í haust.„Menn eru ekki hrifnir af að klæða tvöfalt þegar komið er fram á þennan tíma. Í gegnum árin hefur gefist ágætlega að keyra einn vetur á einföldu lagi. Það sest ekki endanlega fyrr en í vor,“ segir Guðmundur Þór Björnsson hjá verkfræðistofunni Hniti sem hefur eftirlit með verkinu.
Í dag var loks byrjað að klæða í Fannardal en kaflinn frá brúnni og inn að göngunum sjálfum verður klæddur á næstu vikum. Búið er að klæða göngin sjálf og Eskifjarðarmegin.
Rigningarnar síðustu vikur hafa tafið fyrir vegagerðinni í Fannardal. „Þær hafa gert okkur lífið verulega erfitt síðustu tvær vikur. Ausandi rigning er það sem við þurfum síst þegar við vinnum í þessum verkþáttum.“
Inni í göngunum sjálfum voru rafvirkjar að setja upp dagljósabúnað. Þá stendur yfir vinna við fjarskiptamöstur við báða gangamunnana, tengingar í spennustöðvum, tæknirýmum, töflurýmum og öryggiskerfi.
Að sögn Guðmundar eru rafvirkjar langt komnir með vinnu sína og eiga aðeins eftir að setja upp loftræstiblásara. Það verður gert innan skamms.