Norðfjarðargöng: Framkvæmdirnar færast út á vegina
Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát við ný vegamót sem verða til að Norðfjarðargöngum þar sem unnið verður við malbikun á næstunni.
Malbikun ganganna sjálfra er að ljúka en það þýðir að framkvæmdir færast meira út úr göngum og á aðkomuvegina í Norðfirði og Í Eskifirði. Á næstunni hefjast meðal annars framkvæmdir við vegamót hins nýja Norðfjarðarvegar og tengingar að Eskifirði.
Þessu fylgir að taka þarf upp hluta slitlagsins á núverandi vegi á þeim svæðum þar sem nýi vegurinn og sá gamli snertast. Því munu vegfarendur þurfa að aka í fáeinar vikur á malarslitlagi á þessum svæðum, þar til hægt verður að malbika nýju vegamótin. Vonir standa til að það geti orðið undir lok júní.
Vegfarendur eru því hvattir til að sýna aðgæslu og draga úr ökuhraða við framkvæmdasvæðið. Verktaki mun setja upp viðeigandi varúðarmerki og er vonast til að hægt verði að ljúka þessum framkvæmdum í góðri sátt við umferðina.
Mynd 1: Nýju vegamótin í Eskifirði.
Mynd 2: Malbikunarstöðvarnar við Mjóeyrarhöfn.
Myndir: Hnit