Norðfjarðargöng

Norðfjarðargöng: Malbikun lokið

Í gær var lokið við að malbika Norðfjarðargöng en vegir að göngunum verða malbikaðir í júlí. Verkið tafðist nokkuð vegna erfiðra aðstæðna en framkvæmdastjóri verktakans segir vel hafa tekist til fyrir rest.


„Þetta verða rennislétt og fín göng,“ segir Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri malbikunarfyrirtækisins Hlaðbæjar – Colas.

„Þetta gekk að mörgu leyti vel. Gæðaniðurstöður eru góðar og viðskiptavinurinn ánægður.“

Verklok voru hins vegar tíu dögum á eftir því sem fyrst var ætlað. Sigþór segir að sjaldan hafi reynst jafn erfitt að malbika göng en fyrirtækið hefur komið að flestum jarðgöngum á Íslandi.

„Mestu tafirnar urðu vegna svakalegra rigninga sem stóðu í eina fimm daga. Verksmiðjurnar réðu ekki viðað þurrka efnið og afköstin voru helmingur þess sem eðlilegt er og einn daginn þurftum við að hætta alveg.“

Þrisvar sinnum þurfti að hætta vinnu vegna mengunar. „Blásararnir eru ekki komnir upp og náttúrulegi trekkurinn datt meira niður en við höfum upplifað í öðrum göngum. Þá komu menn sér út samkvæmt rýmingaráætlun.“

Sigþór segir aðstæður í göngunum hafa verið vaktaðar vel og engin hætta verið á ferðum. Hún hefði hins vegar komið upp ef menn hefðu ílengst.

Starfsmenn Hlaðbæjar-Colas eru nú á leið heim í frí áður en þeir taka til við að malbika göng að verksmiðju PCC við Bakka á Húsavík.

Þeir koma svo aftur austur í janúar. Þá verða malbikaðir síðustu 100 metrarnir inni í göngunum auk útivega og tenginga. Eins verður þá tekið til við verkefni fyrir Fjarðaál, Vegagerðina og sveitarfélögin á svæðinu.

Mynd: Verkfræðistofan Hnit 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.