Norðfjarðargöng óðum að taka á sig endanlega mynd
Stefnt er að opnun Norðfjarðarganga í lok október og búið að kveikja ljós í stærstum hluta ganganna. Áhyggjur voru um tíma af efnisöflun en búið er að greiða úr því.Í jarðgöngum hafa rafvirkjar unnið á síðustu vikum við uppsetningu og tengingar ljósa, útdrátt og tengingar ljósleiðaralagna vegna stjórnkerfa, auk ýmissa tenginga í töflurýmum. Miðar þeim verkþáttum allvel og hafa nú verið kveikt ljós í stærstum hluta ganganna.
Þá hafa vinnuflokkar unnið hörðum höndum við undirbúning og steypu stétta milli kantsteins og bergs. Sú framkvæmd breytir og bætir ásýnd ganganna talsvert og taka þau óðum á sig endanlega mynd.
Utan ganga er að mestu lokið við öll slitlög Eskifjarðarmegin, en eftir er að ganga frá umferðareyjum við vegamót að Eskifirði, uppsetningu vegriðs og ljósa, auk endanlegra umferðar- og leiðarmerkinga.
Norðfjarðarmegin hefur verið unnið við framleiðslu og akstur burðarlags á kaflann frá gangamunna í Fannardal að eldri Norðfjarðarvegarvegi. Þar hefur verið unnið við ræsagerð og breikkanir á eldri vegi, eins og vegfarendur sem leið eiga um svæðið hafa auðvitað orðið varir við.
Eins og einhverjir hafa eflaust heyrt um, hafa komið upp nokkrir erfiðleikar með útvegun efnis í burðarlag vegarins í Norðfirði. Ástæður þess má fyrst og fremst rekja til þess að minna reyndist falla til af hæfu efni til burðarlaga úr gangagreftinum en væntingar höfðu staðið til.
Þessi vandi er nú úr sögunni og vinnur Suðurverk nú af fullum krafti við framleiðslu og útlögn burðarlaganna og undirbúning vegarins fyrir lögn slitlags.
Gert er ráð fyrir að hægt verði að opna göngin og hina nýju vegi fyrir umferð í lok október.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá framkvæmdum í gær. Myndir: Hnit
1: Rafvirki við tengingar í töflurými
2: Burðarlagi ekið í malara
3: Jafnað undir steypu að bergi
4: Steyp milli kantsteins og bergs
5: Tæknirými í göngunum
6: Göngin eru orðin upplýst að mestu