Norðfjarðargöng

Norðfjarðargöng: Umframkostnaður skýrist af verðbótum

Útlit er fyrir að Norðfjarðargöng verði einum milljarði dýrari en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun. Verðbætur og auknar öryggiskröfur eru helstu ástæðurnar fyrir þessu.


Í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Austurfréttar segir að í langtímasamningum um jarðgangagerð séu ákvæði um verðbætur. Þær séu 760 milljónir króna á fjögurra ára framkvæmdatíma en eru utan við upphaflega fjárveitingaáætlun.

Þá hafi fallið til kostnaður vegna breytinga á öryggiskröfum til jarðganga eftir að samið var um verkið. Einkum er um að ræða fjögur neyðarrými, slökkvibúnað og raflagnir sem tengist nýju kröfunum.

Þessi kostnaður sé að hluta inni í áætluðum óvissukostnaði en út af standi 240 milljónir króna.

Þetta gerir hins vegar að viðbótarkostnaður er um milljarður króna og kosta göngin því fullbúin 14,3 milljarða en ekki 13,3.

Við gröft ganganna þurfti að styrkja svæði þar sem bergið var laust í sér. Slík vinna felur í sér aukakostnað en svigrúm var í kostnaðaráætlun ganganna undir óvissuliðnum.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, skýrði frá viðbótunum á opnum fundi á Reyðarfirði fyrir tveimur vikum. Hann talaði þar um að von væri á milljarðs bakreikningi fyrir Norðfjarðargöng og hálfum milljarð fyrir jarðgöng á Bakka við Húsavík.

Í svari Vegagerðarinnar segir að viðbótarkostnaður vegna þeirra sé 470 milljónir, þar af 150 milljónir fyrir verðbætur.

Á Bakka munar mestu um kostnað við vatnsvarnir sem jókst um 240 milljónir. Heilklæða þurfti göngin þar sem víða lak í lofti og veggjum ganganna. Þá hækkaði kostnaður við vega- og hafnargerð utan ganganna um 80 milljónir.

Göngin kosta þar með 3,57 milljarða en ekki 3,1 eins og upphaflega var gert ráð fyrir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.