Norðfjarðargöng

Norðfjarðagöng: Brunaæfing og frágangur

Norðfjarðargöng verða lokuð á morgun, þriðjudaginn 29. maí frá 19:30 til 22:30 vegna brunaæfingar.

Brunaæfingin mun fara þannig fram að kveiktur verður eldur nærri neyðarrými G, og frá honum mun koma reykur, fylgst með hvernig hann hegðar sér og hvaða áhrif blásararnir hafa.

Mikilvægt er að slökkviliðsmenn fái tilfinningu fyrir hvernig reykur hegðar sér. Jafnframt verður prófað að tala inn á útvarpssendingar í göngunum og æfa öll fjarskipti, meðal annars við vaktstöð Vegagerðarinnar sem á að geta verið slökkviliði til aðstoðar um upplýsingar frá stjórnkerfi ganganna.

Það reynast drjúgar innansleikjurnar hvað frágang varðar, í allan vetur hefur annað slagið verið unnið að frágangi rafmagnsbúnaðar í göngin og fínstilla stjórnkerfið sem við köllum en það er býsna flókið tölvukerfi sem fylgist með ástandi í göngunum og stjórnar meðal annars loftræsingu.

Fylgst er með kerfinu á þjónustustöð vegagerðarinnar á Reyðarfirði og í vaktstöð vegagerðarinnar. Nú höldum við að þessum verkum sé alveg að ljúka og brunaæfingin er því á góðum tíma.

Hafin er vinna við frágang utan ganga í Eskifirði og í næstu viku á að loka holunum í Fannardal. Frágangi verður síðan haldið áfram beggja megin, áætlað er að ljúka því verki í júní. Ein skemma mun þó verða eftir í Eskifirði fram á haust og er ekki hægt að laga endanlega undir henni fyrr en hún er farin.

Svo er reksturinn hafinn, farið að kvarta undan ryki eins og annars staðar og allt það. Göngin voru þvegin áður en þau voru opnuð og síðan er búið er að sópa einu sinni og þvo einu sinni. Nýjar aðstæður eru fyrir Vegagerðina í þessum göngum þar sem axlirnar eru steyptar og þarf að læra hver eru bestu vinnubrögðin miðað við tiltækan tækjabúnað.

Þess skal getið að gömlu göngin í Oddskarði eru lokuð og verða ekki opnuð aftur til umferðar. Það er því engin varaleið til frekar en áður var. Það er því miður þannig með jarðgöng að það þarf að loka þeim stöku sinnum vegna æfinga og viðhalds.

Unnið að þvotti í göngunum með tanki vegagerðarinnar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar