Norðfjarðargöng

Ökumenn keyra almennt varlega um nýju göngin

Forvitnir Austfirðingar hafa margir lagt leið sína til Norðfjarðar í vikunni til að skoða ný Norðfjarðargöng sem opnuð voru á laugardag. Þótt áhyggjur hafi verið af hraðakstri sýna langflestir starfsmönnum sem enn eru þar að störfum mikla tillitssemi.

„Almennt keyrir fólk mjög rólega og skoðar göngin. Litlu bílarnir keyra mjög varlega,“ segir Karl Garðarsson, verkstjóri hjá Suðurverki.

Í gær og fyrradag var í gangi vinna við neyðarrými í göngunum og voru hraðatakmarkanir vegna þeirra. Áminning var gefin út til ökumanna um að virða þær takmarkanir.

„Við lentum í að það keyrði flutningabíll með tengivagn á rúmlega 70 km hraða framhjá okkur í minna en hálfs metra fjarlægð. Hann sló ekki af þrátt fyrir blikkljós að við værum í sýnileikafötum.

Maður er vonsvikinn að atvinnumenn sýni ekki meiri tillitssemi. Eftir að þetta kom upp hafa menn hins vegar passað sig mun meira. Það er eðlilegt að okkur bregði þegar 30-40 tonna tæki kemur svona nálægt okkur á fullri ferð,“ segir Karl.

Ekki verða frekari hraðatakmarkanir í göngunum þessa vikuna en á mánudag hefst vinna á ný sem búast má við að standi í allt að þrjár vikur. Meðal annars verður unnið á lyftum sem þýðir að takmarkanir verða á einni akrein í einu.

Karl segir starfsmenn Suðurverks reyna að hafa takmarkanirnar sem minnstar og biðlar til ökumanna um að keyra eftir aðstæðum frekar en hámarkshraða.

Töluverð umferð er um göngin enda Austfirðingar áhugasamir um þau. „Við verðum varir við mikinn áhuga sem er yndislegt. Það er gott að koma að því að búa til svona mannvirki sem fólk er ánægt með og notar. Það er mikil umferð fyrstu vikuna í nýjum jarðgöngum á meðan mestu forvitninni er svalað.“

Mynd: Jens Einarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar