Norðfjarðargöng

Norðfjarðargöng: „Þetta er sú vinna sem maður hefur valið sér“

Guðmundur Þór Björnsson hefur fylgt eftir Norðfjarðargöngum frá því byrjað var að undirbúa framkvæmdir á Eskifirði sumarið 2013. Enn er nokkrum verkþáttum ólokið en göngin verða opnuð á laugardag.

„Þau verða jú opnuð, með góðu eða illu,“ segir Guðmundur og hlær. Á laugardag verða slétt fjögur ár liðin frá svokallaðri hátíðarsprengingu ganganna.

Guðmundur hefur stýrt hópi verkfræðistofunnar Hnits sem haft hefur eftirlit með verkinu. Þegar mest lét var Hnit með fjóra starfsmenn á staðnum auk þess sem mikil umsvif voru þar á vegum aðalverktakanna Metrostav og Suðurverks. Heldur hefur fækkað í hópnum undanfarna mánuði.

Vinnunni eystra hafa fylgt miklar fjarvistir frá heimili en Guðmundur hefur verið á svæðinu virka daga en flogið heim flestar helgar.

„Þetta er sú vinna sem maður hefur valið sér. Henni fylgja miklar fjarvistir að heiman sem hentar ekki öllum. Þetta er búið að vera dásamlegt en ég viðurkenni að þetta er orðið ansi langur tími. Ég kom hingað úr Búðarhálsvirkjun þannig ég hef verið í fjarvistarverkefnum frá 2011. Þau eru skemmtileg, fjölbreytt og krefjandi.“

Hann segir verkið almennt hafa gengið vel. „Verkið hefur þannig séð gengið áfallalaust, ekki verið nein stór óhöpp eða stór hrun. Við glímdum lengi við mjög erfið setlög sem þýddi að það þurfti að breyta verklagi, hægja á greftrinum og styrkja meira. Það var ekkert stórfall en jók kostnað.“

Hann hefur ekki enn ákveðið hvað hann tekur sér næst fyrir hendur. „Það kemur í ljós. Ég hef ekki verið að gera mér of mikla rellu, manni leggst alltaf eitthvað til.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.