Þegar heilbrigðisforstjórinn malaði Kára Stefánsson í körfubolta

Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, er meðal þeirra sem staðið hafa í eldlínunni austanlands í baráttunni gegn covid-19 veirunni. Stofnunin hefur nú tekið höndum saman við Íslenska erfðagreiningu um að hefja á næstu dögum skimun fyrir útbreiðslu veirunnar í fjórðungnum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðjón og Kári Stefánsson, forstjóri fyrirtækisins mætast en fyrsta skiptið var á körfuboltavellinum.

Saga Guðjóns og Kára er rifjuð upp í grein sem vefritið Lemúrinn birti í gær. Hún átti sér stað árið 2005 og var Guðjón þá 24ra ára nemi í hjúkrunarfræði sem spilaði körfubolta með meistaraflokki Vals.

Guðjón var við æfingu í líkamsræktarstöð, á hlaupabrettinu, þegar Kári kom að, leitandi að einhverjum til að spila körfubolta við, maður á mann. Guðjón spilaði á þessum tíma körfubolta með meistaraflokki Vals og til að gera langa sögu stutta rótburstaði hann Kára í þeirra fyrsta leik.

Kári tók tapinu heldur illa og skoraði á Guðjón í annan leik, nema að þessu sinni skyldu þeir leggja hálfa milljón króna undir. Slíkt var nokkuð mikið fyrir námsmanninn, sem þó sló til og rótburstaði forstjórann á ný.

Með stjörnunum í Denver

Að leik loknum fékk Kári símanúmer Guðjóns áður en hann hélt á brott. Guðjón segist ekki hafa reiknað með að heyra frekar frá Kára . Hann hafði þó hins vegar strax sama dag samband og efndi veðmálið með því að bjóða Guðjóni á stjörnuleik NBA deildarinnar. Kári græjaði flug og hótel fyrir Guðjón. Vel fór um Guðjón á hótelinu, enda kom í ljós að þar dvöldu jafnframt margir af helstu stjörnum deildarinnar í gegnum tíðina.

„Að sitja þarna og horfa yfir þennan sal í morgunmat á hóteli, þarna eru allir uppáhaldsíþróttamennirnir, menn sem maður hefur litið upp til næstum allt sitt líf. Þetta var svo súrrealískt, algerlega ótrúlegt!“ segir Guðjón í greininni.

Stjörnum prýddum helgin var síðan kórónuð þegar Guðjón hitti sinn uppáhalds leikmann, Charles Barkley, fyrir tilviljun á flugvellinum í Denver, skömmu fyrir heimförina.

Leiðin að skimununum

Guðjón segir að hann og Kári séu aðeins málkunnugir í dag en fyrirspurn Lemúrsins um körfuboltaferðina varð til þess að Guðjón hafði samband við Kára til að fá leyfi hans til að segja söguna. En hún hafði víðtækari áhrif en það.

„Ég ákvað að fyrst ég væri á annað borð að hringja í Kára Stefánsson, þá spurði ég hvort ekki væri hægt að redda skimun Íslenskrar erfðagreiningar á Austurlandi. Við erum að rigga því upp í þessum töluðu orðum. Þannig þessi upprifjun hefur alveg raunverulegt gildi fyrir miklu fleiri en mig og Kára.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.