Leikkona leitar að Sigmundi: Villist í Múlasýslum

hrafnabjorg 4Þjóðin hefur ekki varið varhluta af æsispennandi leit sem nú stendur yfir að forsætisráðherra. Fáir hafa þó gengið jafn langt í þeirri leit og leikkonan Saga Garðarsdóttir.

Saga er hress og skemmtilegur pistlahöfundur í Fréttablaðinu og vakti nokkra athygli þegar hún skrifaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni bréf og falaðist eftir pennavináttu við hann.

Eitthvað hefur svarið látið á sér standa og því ákvað Saga nú nýverið að leita Sigmundar á lögheimili hans, svo sem eðlilegt er, en það er að Hrafnabjörgum 3 í Jökulsárhlíð, eins og hún gerir skilmerkilega grein fyrir þegar „á staðinn er komið“.

Í myndbandi af þessu ferðalagi sem Vísir sér um að koma til landsmanna allra má sjá Sögu knýja dyra á hrörlegu húsi á eyðilegum bæ, sem hún kallar Hrafnabjörg í Jökulsárhlíð. Enginn kemur til dyra og á endanum er lítill miði skilinn eftir handa Sigmundi.

Það er þó harla ólíklegt að sá miði komist til skila þar sem kunnugir sjá greinilega að Saga er bara hreint ekki stödd að Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð og því Sigmundar eiginlega alls ekki von á þessum stað. Hér á mynd 1 má sjá húsið að Hrafnabjörgum 3, eða Ráðherrabústaðinn eins og það er kallað núorðið.

En hvar var þá Saga? Yfir þessu myndbandi og villum leikkonunnar skemmtilegu, má vel tísta dálítið. En jafnframt mega kunnugir upplýsa um það hér í athugasemdum, hvar Saga okkar hefur eiginlega verið og hvort hún hafi farið eitthvað víðar.

Hvort Sigmundur var heima þegar Saga fór um, það fáum við kannski aldrei að vita. Hann var að minnsta kosti við á Hrafnbjörgum, eins og sjá má á mynd 2, þegar ljósmyndari Tístsins átti þar leið um fyrir skemmstu, þó hann vildi reyndar ekki láta hafa mikið eftir sér...

Það er a.m.k. ljóst af þessu ævintýri leikkonunnar góðu að Austfjarðaþokan getur verið skæð og ansi villugjarnt í Múlasýslum, a.m.k. ef menn undirbúa ferðina ekki þeim mun betur.

hrafnabjorg 3

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar