Ferð án enda?

gummi gislaSmyril Line olli nokkrum titringi í síðustu viku þegar bréf frá þeim, með beiðni um viðræður um framtíðarviðkomustað ferjunnar Norrænu, barst stjórn Fjarðabyggðarhafna. Seyðfirðingar tóku tíðindunum eðlilega með lítilli gleði, en það eru heldur engin einróma húrrahróp í Fjarðabyggð.

Söngvarinn góðkunni úr SúEllen, Norðfirðingurinn Guðmundur Rafnkell Gíslason, lét að minnsta kosti engan velkjast í vafa um sína skoðun í stöðuuppfærslu á facebook-síðu sinni.

„Ég hef mikið hugsað um ósk Smyril line að ræða við Fjarðabyggð um vetrarstopp ferjunnar Norrænu. Ég varð ólýsanlega dapur þegar ég heyrði fréttina. Mér finnst að bæjaryfirvöld Fjarðabyggðar eigi að hitta Smyril line, að sjálfsögðu, en svo á Fjarðabyggð að krefja yfirvöld um betri vetrarþjónustu á Fjarðarheiði og svo göng eins fljótt og auðið er til Seyðisfjarðar. Mín skoðun er sú að göngin eigi að vera til Mjóafjarðar og Norðfjarðar með tengingu upp á Hérað. Ferjan skiptir Seyðfirðinga öllu en Fjarðabyggð engu. Í Fjarðabyggð er fjölbreytt starfsemi og ótal önnur tækifæri. Ég styð Seyðfirðinga.“

Svo mörg voru þau orð og það er ljóst að skoðun Gumma Gísla er ekki alveg skoðun bara einhvers manns úti í bæ með fallega söngrödd. Guðmundur var oddviti Fjarðalistans á síðasta kjörtímabili, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar á þeim tíma og varamaður í stjórn SSA. Hann er jafnframt núverandi stjórnarmaður í Byggðastofnun og alls ekki áhrifalaus.

En hann lét sér ekki þetta nægja, því eftirfarandi klásúla fylgdi innan sviga.

„Ef... og ég segi ef. Ef einhverjir úr Fjarðabyggð hafa unnið í þessu máli á bakvið tjöldin, þá segi ég skammist ykkur. Svona gerir maður ekki.“

Tístið veltir því fyrir sér hvort þessar móttökur boði ekki einfaldlega að þessi ferð Smyril Line manna sé ekki, eins og SúEllen söng hér um árið, ferð án enda.

Að minnsta kosti verður þetta ekki auðvelt mál, jafnvel innan sveitarfélagsins, og ekki munu menn í Fjarðabyggð eða Færeyjum komast upp með að „láta sjálfan sannleikann ljúga“ svo enn sé vitnað í skáldið.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.