Sigmundur landsfaðir!

Sigmundur DavíðForsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er eins og allir ættu að vita einnig landsbyggðarþingmaður sem lætur sér annt um heimahagana. Þetta kom berlega í ljós á atvinnuráðstefnunni Auðlindin Austurland, sem Austurbrú stóð fyrir á Hallormsstað fyrir skemmstu.
Á ráðstefnunni lýsti hann því meðal annars yfir að ríkisstjórnin hefði áhuga á að styðja við barneignir á Austurlandi, eins og fram kom í umfjöllun í sjónvarpsþættinum Glettur á N4.

„Það sakar ekki ef menn gætu hvatt fólk til að eignast fleiri börn,“ sagði Sigmundur og vísaði til þess að menn yrðu að vera orðnir að lágmarki 20 ára gamlir til að fá atvinnu á olíuborpöllum. Þannig geta þau börn sem fæðast á næsta ári ekki byrjað að vinna fyrr en 2034.

Og í framhaldi af þessu sagði Sigmundur: „Það er stutt í að við þurfum að hefja undirbúning á öllum sviðum og við hlökkum til að vinna þá vinnu með ykkur!“

Því er ekki að neita að það tísti nokkuð í sumum yfir þessum ummælum forsætisráðherra. Hann er enda maður orða sinna og ekki við öðru að búast en að hann leggi sig fram í þetta verkefni eins og önnur.

Reyndar má segja að hann hafi nú þegar lagt sitt af mörkum með því að flytja lögheimili sitt austur enda er hann sjálfur á barneignaraldri og nýbúinn að fjölga mannkyninu með konu sinni.

Og svo er það spurning hvort hann hefur jafnvel gengið enn lengra. Það má minna á að fyrr í haust gekk sú saga fjöllunum hærra að hann ætti von á barni með konu „að austan“. Reyndar var það svo að heimildamenn Tístsins höfðu af því spurnir að forsætisráðherra ætti von á barni með konu „að austan“, „að norðan“, „í Hveragerði“, „á Suðurlandi“ og „á Höfn“.

Svo sterk varð sagan, eða sögurnar, að hann sá sig knúinn til að neita þessu opinberlega og má ætla að flestir geri sér grein fyrir að ekki er nokkur fótur fyrir þessu. Má í því samhengi raunar spyrja sig hvort menn töldu einhvern tíma líklegt að okkar ágæti forsætisráðherra nyti slíkrar kvenhylli að sjálfur Hermann heitinn Gunnarsson hefði varla upplifað annað eins.

En það má líka lengi hafa gaman af að velta fyrir sér hvort að Sigmundur hafi kannski bara misskilið þetta hlutverk sitt sem „landsfaðir“ svona svakalega. Nú eða þá að hann ætli sér persónulega að manna eins og einn olíuborpall. Hver veit?

Í framhjáhlaupi má svo reyndar minnast á að Norðfirðingar eru foringjahollir með afbrigðum, eins og mýmörg dæmi eru um. Þar er komin upp sú staða að leikskólinn er sprunginn og raunar er útlit fyrir að nýr leikskóli sé það einnig, meira að segja áður en byrjað er að byggja hann!

En hvort það er fylgispekt Norðfirðinga við Framsóknarforingja sína að þakka eða einhverju öðru verður kannski seint fullsvarað.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.