Eitt dauðsfall á mann
Jón Kristjánsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, er meðal þeirra sem teknir eru fyrir í bókinni Skagfirskar skemmtisögur sem kemur nú út fyrir jólin. Hann á enda ættir sínar að rekja til Skagafjarðar austan vatna, fæddur og uppalinn í Óslandshlíð.Eitt fyrsta embættisverk Jóns í stóli heilbrigðisráðherra var að taka á móti danska starfsbróður sínum. Liður í þeirri heimsókn var að skoða hjartadeild Landspítalans. Þegar búið var að fara yfir verkferlana, rannsóknir, greiningu og aðgerðir spurði sá danski:
„Hvert er dánarhlutfallið hjá ykkur á Íslandi?" Jón hugsaði sig um alllengi, hafði engan viðstaddan til að spyrja og svaraði loks:
„Það er alveg eins og hjá ykkur í Danmörku. Það er eitt á mann!"
Einhverju síðar sagði sr. Hjálmar Jónsson þessa sögu af Jóni við aftansöng í Dómkirkjunni á gamlárskvöldi, er hann var að hugleiða fallvaltleik lífsins. Svo vildi til að Jón var meðal viðstaddra kirkjugesta og síðar var hann spurður hvort þessi saga væri sönn. Það komu vöflur á Jón uns hann svaraði:
„Ja, ég heyrði hana fyrst við messu í Dómkirkjunni!"