Dumbledore, Dorrit og Doddi Bjarna
Á tiltölulega skömmum tíma hefur Austurland orðið mun meira „cosmopolitan“ en menn hafa löngum átt að venjast. Þessi þróun hefur komið sumum í opna skjöldu.Það virtist í það minnsta vera nokkuð ráðvilltur ferðalangur sem ritaði eftirfarandi á facebook-síðu sína nú í kvöld.
Venjulegt fimmtudagskvöld á Hótel Héraði og setið við þrjú borð. Við eitt situr Dorrit með karlinum sínum, við annað ég með reyfara eftir James Patterson og við það þriðja Albus Dumbledore í eigin persónu. Grínlaust, þetta er lineuppið...!
Það er vonlegt að Þóroddur Bjarnason, sem að undanförnu hefur dvalist erlendis í námsleyfi, hafi ekki áttað sig á því hverslags breytingar hafa orðið hér eystra. Nú ganga kvikmyndastjörnur og mektarfólk um götur og varla að nokkur kippi sér upp við Stanley Tucci á hlaupabrettinu eða Sofie Gråbøl í sundi.
Þannig er væntanlega auðvelt fyrir einn ráðvilltan prófessor og stjórnarformann Byggðastofnunar að fá snert af minnimáttarkennd á hótelbarnum á Héraði...