Þessir Reykvíkingar...
Heimur versnandi fer og börnum er ekki lengur kennd landafræði í skólum! Sérstaklega virðist ástandið slæmt á höfuðborgarsvæðinu, enda stundum erfitt að gægjast mikið út fyrir Ártúnsbrekkuna.Það er síðan alltaf svolítið pínlegt þegar þetta opinberast og góð og gegn gáfumenni og Þingeyingar eins og Leifur Þorkelsson heilbrigðisfulltrúi á HAUST þurfa að uppfræða viðkomandi um helstu staðhætti. Þetta tekur hann að sér alveg án aukagreiðslu, en birtir reyndar afraksturinn öðrum til skemmtunar á Facebook og segir þar svo frá:
Fékk símtal er rétt í þessu. Vinnutengt. Það fjallaði m.a. um starfssvæði Heilbrigðiseftirlits Austurlands, sem eins og nafnið bendir til er Austurland, frá Vopnafirði suður í Skaftafell nánar tiltekið.
Eftir stuttan inngang þróaðist samtalið á eftirfarandi hátt:
Rödd í síma: Alveg frá Vopnafirði og í Skaftafell segirðu?
LÞ: Já það er rétt
Rödd í síma: Þannig að Gullni hringurinn er þá eiginlega allur inni á ykkar svæði?
LÞ: Gullni hringurinn?
Rödd í síma: Já Gullfoss, Geysir, Þingvellir og allt það.
LÞ: Nei. Þetta er einhver misskilningur, þessir staðir eru allir á Suðurlandi. Þú ættir ef til vill að heyra í þeim þar.
Rödd í síma: Já en, til þess að komast á þessa staði þarf ég að fara austur fyrir fjall.
LÞ: Ef þú ert í Reykjavík já, þá fara menn gjarnan austur fyrir fjall.
Rödd í síma: Og bíddu við, þegar ég er kominn austur fyrir fjall er ég þá ekki kominn á Austurland?
LÞ: Ekki kannski alveg um leið um leið og þú kemur austur fyrir fjallið en ef þú keyrir nógu lengi í austur endar þú líklega á Austurlandi.
Rödd í síma: Já, einmitt, ég heyri kannski bara í þeim á Suðurlandi.
LÞ: Já gerðu það...
Myndin að ofan náðist af Leifi um það bil sem hann lagði frá sér símann!